Guðmundur Bergmann Magnússon fæddist að Dvergasteini á Skagaströnd 24. júlí 1919. Hann lést á Heilbrigðisstofnun A-Hún., Blönduósi sunnudaginn 3. janúar 2010.

Foreldrar hans voru Magnús Steingrímsson, f. 3.4. 1881, d. 25.7. 1951, frá Njálsstöðum á Skagaströnd og kona hans Guðrún Einarsdóttir, f. 10.8. 1877, d. 17.10. 1971, frá Hafurstaðakoti á Skagaströnd.

Systkini Guðmundar voru Steingrímur, f. 15.6. 1908, d. 13.3. 1975, bóndi á Evindarstöðum í Blöndudal, María Karólína, f. 22.11. 1909, d. 10.2. 2005, ljósmóðir á Sauðárkróki, síðast búsett í Hafnarfirði, Sigurður Bergmann, f. 4.12. 1910, d. 16.12. 1997, verkstjóri á Sauðárkróki, Guðmann, bóndi á Vindhæli, f. 9.12. 1913, d. 22.11. 2000 og Páll, f. 4.12. 1921, bóndi á Vindhæli, sem einn er á lífi af börnum Guðrúnar og Magnúsar.

Guðmundur ólst upp með foreldrum sínum og systkinum á Dvergasteini og víða í Vindhælishreppi, en lengst af bjuggu þau á Bergstöðum, Þverá og Sæunnarstöðum í Hallárdal.

Þegar hann var um fermingaraldur á Sæunnarstöðum veiktist hann af taugaveiki, sem hann lá rúmfastur út af sumarlangt og náði sér aldrei fullkomlega af.

Hann hóf búskap með foreldrum sínum og bræðrum á Sæunnarstöðum í Hallárdal og bjuggu þau þar til ársins 1944, er Guðmann bróðir hans festi kaup á jörðinni Vindhæli á Skagaströnd, en þangað flutti þeir bræður með foreldrum sínum sama ár og bjuggu þar allir þrír í félagi fram til ársins 1997, að Magnús sonur Guðmanns keypti Vindhæli og hóf þar búskap.

Guðmundur var alla tíð ókvæntur og barnlaus en í miklu uppáhaldi hjá honum voru börn Guðmanns bróður hans og Maríu Ólafsdóttir eiginkonu hans. Þau eru Guðrún, Anna, Einar, Ólafur, Magnús og Halldóra. Síðar hafa komið barnabörn Guðmanns og Maríu til sögunnar, sem dvalið hafa langdvölum á Vindhæli og notið mikils ástríkis af hálfu Guðmundar frænda síns.

Guðmundur og bræður hans lögðu stund á sauðfjárbúskap á Vindhæli og fyrstu árin voru þeir einnig með um 30 kýr og seldu mjólk til íbúa í Höfðakaupstað. Þá voru allar kýrnar handmjólkaðar og annaðist Guðmundur þann starfa ásamt Guðmanni um árbil, eða þar til þeir hættu mjólkursölu upp úr 1970 og fjölguðu þá sauðfénu, en höfðu kýr aðeins til heimanota.

Guðmundur var einnig vel að sér í sauðfjármörkum sveitunga sinna og fór í réttarferðir norður í Skagafjörð árum saman til að hirða fé úr Vindhælishreppi á haustin.

Guðmundur var vel ern og fylgdist með öllum þjóðmálum og fréttum fram á síðasta dag. Hann barðist í mörg ár við lungnasjúkdóm og var háður súrefnisgjöf. Hann dvaldi síðustu 12 árin á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi, síðustu 2 árin ásamt Páli bróður sínum, sem flutti þangað árið 2008.

Útför Guðmundar fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag, laugardaginn 9. janúar 2010, kl. 14.

Elsku Gummi frændi.

Ég vildi að þú hefðir getað verið lengur hjá okkur. Þú varst svo góður. Þegar pabbi sagði mér að þú værir dáinn féllu mörg tár. Það er erfitt að hugsa til þess að geta ekki lengur komið til þín. Ég mun geyma allar okkar stundir í hjartanu mínu. Ég vona að þér líði vel þar sem þú ert. Guð geymi þig og varðveiti.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

Höndin þín, Drottinn, hlífi mér,

þá heims ég aðstoð missi,

en nær sem þú mig hirtir hér,

hönd þína eg glaður kyssi.

Dauðans stríð af þín heilög hönd

hjálpi mér vel að þreyja,

meðtak þá, faðir, mína önd,

mun ég svo glaður deyja.

Minn Jesús, andlátsorðið þitt

í mínu hjarta eg geymi,

sé það og líka síðast mitt,

þá sofna eg burt úr heimi.

(Hallgrímur Pétursson.)

Kveðja.

Þinn frændi,

Guðmann Einar.

Elsku frændi minn. Þegar kemur að kveðjustund eftir að hafa átt þig að alla mína ævi þyrlast upp ótal minningar frá æskudögum mínum norður á Vindhæli. Við systkinin nutum þeirra forréttinda, sem nútímabörn njóta alltof sjaldan, að fá að alast upp með foreldum, tveim frændum og ömmu á heimilinu til að snúast við okkur og gera okkur óþekk og það sem er okkur dýrmætast að hafa alltaf einhvern heima til að sinna okkur. Við fengum frá blautu barnsbeini að taka þátt í lífi og störfum ykkar hinna fullorðnu og fræðast um leið um lífið, tilveruna og fortíðina, sem er grunnurinn undir framtíðina.

Ég man jólin á dimmum desemberkvöldum, þegar þið bræðurnir voru komnir inn frá fjárhúsverkunum, mamma var búin að elda jólahangikjötið, síðan settust allir við matarborðið, sem var inni í herberginu ykkar ömmu. Þar var jólatréð skreytt á borðinu hjá ömmu og þar inni var aðfangadagskvöldið haldið hátíðlegt. Hátíðin byrjaði á því að allir hlustuðu á aftansönginn kl. sex í útvarpinu.

Einnig bjarta vor- og sumardaga þegar þið bræðurnir voruð að reka féð á Vindhæli og litlir angar fylgdust með. Hópurinn hljóp á móti ykkur og allir fengu að koma á hestbak, stundum fleiri en eitt á hvern hest. Síðan man ég sömu aðstæður mörgum árum seinna þegar afkomendahópurinn á Vindhæli hafði stækkað um 10 stelpur og ennþá var jafn gaman að komast á hestbak, þið bræðurnir alltaf jafn glaður með barnahópinn í kringum ykkur þó aldurinn væri farinn að færast yfir ykkur. Börn voru alla tíð aufúsugestir á Vindhæli og þar voru alltaf einhver aukabörn á sumrin, seinni árin börn bræðrabarna þinna öll sumur.

Á Vindhæli var eins konar Paradís á jörð í augum barna á hvaða aldri sem þau voru. Þú og bræður þínir hlutuð ykkar menntun í skóla lífsins og urðuð afar fróðir og vel að ykkur um menn og málefni, fylgdust með dægurmálum, pólitík og skoðunum manna. Þið þekktuð allsleysi og skort kreppuáranna, þegar foreldarar ykkar áttu ekki jarðnæði og hröktust milli leigujarða með barnahópinn sinn.

Þið bræðurnir þrír bjugguð með ömmu og deilduð kjörum hver með öðrum nánast alla ykkar tíð svo lengi sem öllum entist heilsa til. Amma bjó með ykkur allt til endiloka og deildi herbergi með þér mörg síðustu árin eftir að hún var orðin blind. Þú trúðir á allt það besta, sem í hverjum manni býr, sem er heiðarleiki, samviskusemi og trú á hjálp almættisins þegar erfiðleikar steðjuðu að. Þið Palli bjugguð áfram með mömmu á Vindhæli eftir að pabbi veiktist og önnuðust bústofninn eins og áður með aðstoð Magga, sem tók við búinu á Vindhæli 1997 og hefur búið þar síðan.

Síðustu árin hafa verið þér erfið sökum heilsubrests og þú dvalið á Heilbrigðisstofnun á Blönduósi og notið frábærrar aðhlynningar starfsmanna þar. Hugurinn var samt allur við búskapinn á Vindhæli og þú fylgdist vel með heyskapnum, lambafjöldanum sem settur var á og öllu því sem máli skiptir í lífi bóndans.

Elsku frændi, vertu ætíð guði falinn og hjartans þakkir fyrir endalausan kærleika og umhyggju alla mína ævi.

Þín frænka,

Guðrún.

Elsku Gummi.

Þrátt fyrir langvinn veikindi átti ég alls ekki von á því að þinn tími væri kominn. Þegar ég kvaddi þig síðast bjóst ég við því að sjá þig næst þegar ég kæmi norður.

Það er margs að minnast, minningarnar hverfa aldrei og þær hlýja okkur þegar róðurinn er þungur. Þær eru margar minningarnar sem koma upp í hugann þegar ég skrifa þetta. Hæst ber þá sem ég hef kannski mest hlegið að í seinni tíð þegar við Ragna fórum upp í dal að sækja Bleik og þú komst stuttu síðar að leita að okkur. Þá var ég föst í drullupytti upp í mitti og Ragna átti fullt í fangi með að ná mér upp úr. Þú stóðst álengdar og hlóst dátt. Auðvitað hefðir þú gripið inn í ef þurft hefði.

Einnig man ég vel eftir því þegar þið bræður brugðuð ykkur af bæ og nokkrar frænkur og mæður þeirra sáu um búið. Við Ragna áttum að gefa heimalningunum og passa að ein kindin þín leyfði lambinu sínu að fá sér sopa. Við fórum með þér í kennsluferð í fjárhúsið, við áttum einfaldalega að halda í hornin á rollunni. Eitthvað vorum við frænkur hræddar við stóru, hyrndu mórauðu rolluna en létum okkur hafa það. En á meðan á æfingunni stóð hlóst þú að klaufaskapnum í okkur frænkum.

Búskapurinn á Vindhæli var um margt sérstakur. Þið bræður voruð mjög ólíkir á margan hátt en að sama skapi mjög líkir á margan hátt. Hver átti sinn stofn af kindum, hlutverkin ykkar voru ólík og verkaskipting tiltölulega skýr. Einhvern veginn voru hundarnir og þar af leiðandi hvolparnir oft á þína ábyrgð. Mér leiddist ekki að leika mér með hvolpana og þú varst alltaf til í að hjálpa okkur að sækja þá til Tinnu sem ég var alltaf hrædd við. Ég man eftir því þegar ég var sennilega 10-11 ára og einn hundanna varð fyrir bíl, þú sagðir okkur Rögnu að pallbíll á leiðinni út á Skagaströnd hefði keyrt á hundinn. Þú ætlaðir alls ekki að láta ökumanninn komast upp með þetta samviskulaust heldur lést þú hundshræið vera í vegkantinum fram á daginn til að ökumaðurinn fengi nú í það minnsta samviskubit þegar hann færi aftur inn eftir.

Umræðurnar við matarborðið gátu oft orðið ansi hvassar og háværar enda sátu við borðsendann menn með skoðanir og misjafnlega þrjóskir. Ég man sérstaklega eftir snörpum umræðum þegar Óli á Keldulandi eða Jónas á Njálsstöðum kíktu í kaffi.

Síðustu ár hefur þú verið á Sjúkrahúsinu á Blönduósi við gott atlæti. Ég held að þér hafi liðið mjög vel þar, í það minnsta var yfirleitt létt í þér hljóðið og stutt í hláturinn – meira að segja þegar heilsan var léleg. Þegar Maggi spurði þig í vor hvort það væri ekki öruggt að þú myndir kjósa Framsókn skelltir þú upp úr þrátt fyrir erfið og mikil veikindi á þeim tímapunkti.

Minningarnar eru margar, sumar bara fyrir okkur frænkurnar eða fjölskylduna. Fjölskyldan átti góða stund saman í sumar þegar við héldum upp á 90 árin þín. Elsku Gummi, það er margs að minnast og margt ber að þakka. Guð blessi minningu þína.

Ásdís Ýr Arnardóttir.