Vandræði Jón Arnór Stefánsson og félagar í karlalandsliðinu fá ekki mikið að gera næstu tvö árin.
Vandræði Jón Arnór Stefánsson og félagar í karlalandsliðinu fá ekki mikið að gera næstu tvö árin. — Morgunblaðið/hag
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það fer ekkert landslið frá KKÍ í Evrópukeppni á þessu ári og A-landsliðs karla og kvenna keppa ekki fyrr en árið 2012 í fyrsta lagi,“ sagði Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands í gær.

„Það fer ekkert landslið frá KKÍ í Evrópukeppni á þessu ári og A-landsliðs karla og kvenna keppa ekki fyrr en árið 2012 í fyrsta lagi,“ sagði Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands í gær. Stjórn KKÍ tók þá ákvörðun í gær að senda ekki landslið til keppni í Evrópukeppni á þessu ári vegna fjárskorts. „Við erum búnir að liggja yfir þessu frá því sl. haust og þetta er gríðarlega stór og erfið ákvörðun,“ bætti Hannes við.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

KOSTNAÐURINN við þátttöku í Evrópukeppni fyrir A-landslið karla og kvenna er um 20 milljónir kr. Hannes segir að öllum steinum hafi verið velt við í leit að fjármagni og þrátt fyrir velvilja styrktaraðila á borð við Skeljung hafi vantað 12-15 milljónir til þess að endar næðu saman. Við fáum 3,4 milljónir kr. í styrk frá Afrekssjóði ÍSÍ, sem er framlag frá Ríkissjóði. Það gefur auga leið að þessi upphæð er aðeins dropi í hafið.

Leikmenn í unglingalandsliðunum hafa verið að greiða 50-60% af kostnaði sjálf við ferðirnar. Það er ekki óskastaða fyrir okkur sem sérsamband en þetta er sá veruleiki sem við búum við.“

Óhentugt keppnisfyrirkomulag

KKÍ hefur ekki fengið endurnýjað samninga við landsliðsþjálfarana hjá A-landsliðunum en Sigurður Ingimundarson hefur þjálfað karlaliðið og Henning Henningsson kvennaliðið.

Hannes segir að þrátt fyrir að Evrópukeppnin verði ekki á dagskrá næstu tvö árin hjá A-landsliðunum þá muni landslið Íslands leika um 40 landsleiki á þessu ári. „Norðurlandamótin eru á dagskrá hjá öllum landsliðunum og einnig vináttuleikir. Við erum ekki hættir með afreksstarf en Evrópukeppnin hefur verið langdýrasti liðurinn í þessum rekstri. FIBA-Europe greiðir ekki neinn kostnað vegna þátttöku okkar í Evrópukeppninni. Keppnisfyrirkomulagið hjá A-landsliðunum hefur einnig verið vandamál að okkar mati. Landsleikir fara aðeins fram á 2 vikna tímabili í ágúst. Það er mjög óhentugt. Körfuboltatímabilið er varla byrjað og við höfum fundið að áhuginn fyrir landsleikjum í ágúst er minni en yfir vetrartímann. Við höfum lagt það til að Evrópukeppnin fari fram yfir keppnistímabilið líkt og þekkist í fótboltanum. Að landsliðin fá leikmenn í „landsliðsglugga“ yfir veturinn. Fleiri þjóðir hafa viðrað slíkar hugmyndir.“

Danir og Írar verða ekki með

Það eru fleiri þjóðir sem hafa ákveðið að draga sig út úr Evrópukeppninni. Danir og Írar verða ekki með en Norðmenn hafa aðeins sent kvennalið í þessa keppni á undanförnum misserum. Danir og Norðmenn njóta góðs af styrkum frá ríkinu þegar kemur að þátttöku í Evrópukeppni fyrir yngri landsliðin. Því miður erum við ekki með slíkt fyrirkomulag. Krakkarnir sem eru valdir í yngri landsliðin bera þann kostnað sem fylgir því að koma sér á æfingar, þau þurfa einnig að borga rúmlega helming í ferðakostnaðinum þegar við förum í keppnisferðir til útlanda. Það er mun dýrara fyrir okkur að ferðast en aðrar þjóðir og þetta er því allt saman mjög erfitt.“

Engin uppgjöf

Er stjórn KKÍ að gefast upp á því að vera með afreksstarf?

„Nei, það er af og frá. Þrátt fyrir þessa erfiðu ákvörðun þá erum við að vinna að framtíðarplönum sem snúa að afreksstarfi okkar. Um helgina verðum við með „vinnubúðir“ þar sem við ætlum að fara enn betur yfir okkar stefnu í afreksmálum. Það er stefnan að keppa á ný í Evrópukeppni A-landsliða haustið 2012. Og vonandi getum við sent 1-2 ungmennalið í Evrópukeppni á árinu 2011.“

Í fréttatilkynningu sem stjórn KKÍ sendi frá sér í gær segir m.a. að ráðherrar og alþingismenn hafi ekki gert sér grein fyrir því að íþróttahreyfingin þurfi á meira fjármagni að halda til þess að halda úti afreksstarfi með þeim sóma sem flestir Íslendingar vilja.

*Fréttatilkynninguna má lesa í heild sinni á mbl.is/sport.