Heilbrigðismál eru viðkvæmur málaflokkur og þar er mikilvægt að ganga fram af varfærni þegar kemur að niðurskurði. Þó er það svo að stjórnvöld verða að hafa kjark og þor til að hagræða, ekki síst á tímum sem nú.

Heilbrigðismál eru viðkvæmur málaflokkur og þar er mikilvægt að ganga fram af varfærni þegar kemur að niðurskurði. Þó er það svo að stjórnvöld verða að hafa kjark og þor til að hagræða, ekki síst á tímum sem nú.

Eins og Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um liggur fyrir skýrsla sérstaks starfshóps heilbrigðisráðherra þar sem bent er á mögulegar sparnaðarleiðir með flutningi verkefna á milli sjúkrahúsa á suðvesturhorninu. Um er að ræða háar fjárhæðir, eða um 1,7 milljarða króna á ári.

Forstjóri Landspítalans, Björn Zoëga, sagði í samtali við Morgunblaðið að eðlilegt væri að reynt yrði að nýta skýrsluna. Í henni væri bent á að hægt væri að ná fram töluverðum sparnaði í heilbrigðiskerfinu án þess að það kæmi niður á þjónustu, og jafnvel að hún mundi batna. Hins vegar þætti honum miður að ekki væri farið eftir ábendingum í skýrslunni.

Að sögn Björns verður frumkvæði að koma frá heilbrigðisráðuneytinu, en ljóst er að þar er enginn vilji til að fara þær sparnaðarleiðir sem nefndar eru í skýrslunni. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hafnar því einfaldlega í viðtali við Morgunblaðið að frumkvæði komi úr ráðuneytinu, og orðar það svo að ekki verði teknar einhliða ákvarðanir ofan frá um tilflutning verkefna. Um leið hnýtir hún í fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson, og telur ekki merki um „pólitískan kjark að efna til stríðs við íbúa og alla hagsmunaaðila“, eins og hann hafi gert sem ráðherra.

Vitaskuld er ekki markmið að efna til átaka, en það hlýtur þó að vera lágmarkskrafa að ráðherrar treysti sér í þær sparnaðaraðgerðir sem mælt er með og taldar eru geta bætt þjónustu við sjúklinga.