Gaman á skíðum Margir voru í Hlíðarfjalli í góða veðrinu síðdegis í gær, þar á meðal Berglind og Stefán. Stóra systir dró Stefán á eftir sér í þotunni.
Gaman á skíðum Margir voru í Hlíðarfjalli í góða veðrinu síðdegis í gær, þar á meðal Berglind og Stefán. Stóra systir dró Stefán á eftir sér í þotunni. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Eftir Ingibjörgu Rósu Björnsdóttur ingibjorgrosa@mbl.is TALSVERÐUR snjór, frost og logn er nú á Akureyri og skíðafæri í Hlíðarfjalli eins og best verður á kosið.

Eftir Ingibjörgu Rósu Björnsdóttur

ingibjorgrosa@mbl.is

TALSVERÐUR snjór, frost og logn er nú á Akureyri og skíðafæri í Hlíðarfjalli eins og best verður á kosið. Sömu sögu er ekki hægt að segja um skíðasvæðið í Bláfjöllum sem hefur ekkert verið opið það sem af er vetri. Veðurspáin næstu daga er ekki hagstæð fyrir svæðið en spáð er hita yfir frostmarki og rigningu.

Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum, segist þó langt í frá svartsýnn. „Við gátum haft opið svolítið fyrir jólin í fyrra en opnuðum svo ekki fyrr en 17. janúar og fengum frábæran vetur, einn besta skíðavetur Bláfjalla í tíu ár, svo ég sé enga ástæðu til annars en bjartsýni. Það er búið að bæta aðstöðuna í Bláfjöllum mikið svo við þurfum miklu minni snjó en áður. Það vantar bara einn góðan dag í snjókomu í Bláfjöllum og mér skilst á veðurfræðingum að það eigi að snjóa eitthvað í næstu viku.“ Magnús segir fólk bíða spennt eftir að opnað verði í Bláfjöllunum og þangað berist mikið af fyrirspurnum. Magnús var hins vegar sjálfur staddur á Akureyri þegar Morgunblaðið náði tali af honum.

„Hér er gríðarlegur snjór og ég skrapp bara í skíðaferð með fjölskylduna hingað yfir helgina.“

Enn laust gistipláss

María H. Tryggvadóttir, verkefnisstjóri ferðamála hjá Akureyrarstofu, segir að fólk hafi streymt í bæinn um áramótin og hálfgerð páskastemning verið í Hlíðarfjalli. „Aðstæður eru frábærar í fjallinu, mikill snjór og undanfarið hefur verið blíðviðri svo hér spilar allt saman. Mér skilst að orlofsíbúðir og -bústaðir séu nánast öll bókuð en eitthvað laust enn á hótelum og gistiheimilum.“

Að sögn Svölu Haraldsdóttur, móttökustjóra KEA-hótelanna, er laust gistipláss í janúar en mikið bókað þegar nær dregur árshátíðum í febrúar og mars. Hún segist hafa orðið vör við aukinn straum ferðamanna til Akureyrar í leit að skíðafæri og óvenjumikið sé um bókanir með stuttum fyrirvara svo að skíðaiðkendur fari greinilega minna til útlanda heldur stökkvi á tækifærin innanlands.

Sala vetrarkorta í Hlíðarfjalli hefur tvöfaldast

„Það kyngdi niður snjó á aðfangadag og jóladag, veðrið var mjög kalt og fallegt og aðsóknin um hátíðirnar alveg sérlega góð,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli. Svæðið hefur verið opið allt frá 28. nóvember og segir Guðmundur að met hafi verið slegið í aðsókn milli jóla og nýárs þegar fólk hafi flykkst í brekkurnar. „Vetrarkortasalan hefur tvöfaldast frá því í fyrra og aðstaðan aldrei verið eins góð og hún er núna. Veðurspáin fyrir norðan er vilholl skíðaunnendum á næstunni. „Það er um að gera að nýta aðstæðurnar, ef einhver hefur hugsað sér að fara á skíði seinnipartinn í febrúar á hann ekkert að bíða með það heldur drífa sig núna meðan færið er svona frábært.“