Þorsteinn Veltir fyrir sér forvitni nágranna.
Þorsteinn Veltir fyrir sér forvitni nágranna. — Morgunblaðið/RAX
„ÉG er hérna að labba í vinnuna með hundinn. Það er að segja ég er að fara að vinna, hann kemur með mér,“ segir Þorsteinn Guðmundsson, grínisti og leikskáld með meiru, þegar blaðamaður spyr hvort hann hitti nokkuð illa á hann.

„ÉG er hérna að labba í vinnuna með hundinn. Það er að segja ég er að fara að vinna, hann kemur með mér,“ segir Þorsteinn Guðmundsson, grínisti og leikskáld með meiru, þegar blaðamaður spyr hvort hann hitti nokkuð illa á hann. Hundur Þorsteins er sumsé atvinnulaus.

Á morgun verður frumflutt nýtt útvarpsleikrit eftir Þorstein í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1, Veggir með eyru , sem segir af gamalli konu sem býr í risíbúð í gömlu húsi í Vesturbæ Reykjavíkur og liggur með eyrað við gólffjalirnar daga og nætur og vakir yfir parinu sem býr á hæðinni fyrir neðan. Hvað rekur hana til þess, umhyggja eða afskiptasemi? spyr Þorsteinn. Ungur, atvinnulaus maður gerir tilraun til þess að leita svara við þessum spurningum og taka við hana viðtal í von um að geta selt það í útvarpið. Þórunn Magnea Magnúsdóttir leikur gömlu konuna og Víkingur Kristjánsson hinn unga, atvinnulausa mann.

„Þetta sprettur nú upp úr reynslu sem er, held ég, bara sammannleg,“ segir Þorsteinn um hugmyndina að leikritinu, en hann hefur sjálfur búið í hljóðbæru timburhúsi í miðbæ Reykjavíkur. „Ég held að allir hafi einhvern tíma lagt eyra að vegg,“ bætir hann við og viðurkennir í kjölfarið að hafa hlerað nágranna sína. „Ég held ég geti slegið því föstu að við höfum öll líka verið hleruð.“ Þessar hugleiðingar vekja svo þær spurningar hvort það sé æskilegt að nágrannar fylgist hver með öðrum og hvort fólk vilji jafnvel að fylgst sé með því. Veggir með eyru verður flutt kl. 14 á morgun. helgisnaer@mbl.is