Guðmundur G. Þórarinsson
Guðmundur G. Þórarinsson — Morgunblaðið/Golli
Eftir Guðmund G. Þórarinsson: "Afstaða Íslendinga til beins lýðræðis mun vafalítið verða viðfangsefni bóka um þróun lýðræðis í framtíðinni."

KREPPAN er að varpa nýju ljósi á hvernig lýðræðislegar ákvarðanir eru teknar á Vesturlöndum. Í mörgum löndum hafa kjörin stjórnvöld ákveðið að verja fé almennings til þess að bjarga bönkum og öðrum fyrirtækjum frá hruni. T.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum er um gríðarlegar upphæðir að ræða. Spurningin verður æ áleitnari hvort ríkisstjórnir með lítinn meirihluta geti ákveðið að láta skattgreiðendur bjarga einkafyrirtækjum frá gjaldþroti, borga fyrir gjaldþrot þeirra, eða hækkað álögur á skattgreiðendur til þess að mæta afleiðingum ákvarðana einkafyrirtækja.

Ákvörðun forseta Íslands að vísa slíku máli til þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu vekur heimsathygli. Frumkvæði Íslendinga í þessu máli vekur alþjóðasamfélagið til umhugsunar. Fulltrúalýðræði hefur marga galla og í hátíðaræðum tala flestir um beint lýðræði. Fræðimenn hafa t.d. í hálfkæringi kallað fulltrúalýðræði Bretlands „electoral dictatorship“.

Lengi munu menn eiga eftir að fjalla um þessa fjármálalegu heimskreppu. Margir telja að aðstaða Íslands verði í fræði- og kennslubókum framtíðarinnar tekin sem dæmi um hvernig farið geti. En framtíðin mun ekki aðeins beina athyglinni að Íslandi í fjármálalegu tilliti. Afstaða Íslendinga til beins lýðræðis mun vafalítið verða viðfangsefni bóka um þróun lýðræðis í framtíðinni.

Líklegt er að ákvörðun Íslendinga að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu verði skráð í sögubækur og tekin inn í kennslubækur um lýðræði. Þegar öldurnar fer að lægja munu fleiri og fleiri átta sig á að Íslendingar eru að brjóta blað.

Hér er ekki fjallað um hve mikið Íslendingum ber að borga. En athyglisvert er frumkvæði Evu Jolie sem hefur lagst í að kanna hjá höfundum hinnar evrópsku reglugerðar hvernig beri að framkvæma hana. Hún hefur eftir þeim að reglugerðin eigi ekki við í tilviki Íslendinga.

Íslendingar hafa sett í sviðsljósið spurninguna hvort kjörnir fulltrúar geti ákveðið, án samþykkis þjóðarinnar, að skattgreiðendur greiði fyrir gjaldþrot og mistök einkafyrirtækja með hækkandi sköttum, auknu atvinnuleysi, minnkandi kaupmætti og samdrætti velferðarkerfisins. Mér kæmi ekki á óvart að sagan mundi dæma þá sem nú snúast öndverðir gegn þjóðaratkvæðagreiðslu í þessu máli sem fulltrúa gamla tímans, aðila sem séu fastir í hinu borgaralega hjólfari og hafi ekki náð að skynja þróun lýðræðis og kall tímans.

Höfundur er verkfræðingur.