<strong>Voði</strong> „Fólk er gabbað í upphafi, fólk er leitt inn í sólbjartan heim með krúttlegum verum,“ útskýrir Jóhann. „En svo brestur á heimsendir.“
Voði „Fólk er gabbað í upphafi, fólk er leitt inn í sólbjartan heim með krúttlegum verum,“ útskýrir Jóhann. „En svo brestur á heimsendir.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is HEITI þessarar plötu Jóhanns er And In The Endless Pause There Came The Sound Of Bees , setning tekin úr myndasögunni Varmints sem myndin byggir svo á. Um er að ræða hálftíma teiknimynd eftir Marc Craste.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

HEITI þessarar plötu Jóhanns er And In The Endless Pause There Came The Sound Of Bees , setning tekin úr myndasögunni Varmints sem myndin byggir svo á. Um er að ræða hálftíma teiknimynd eftir Marc Craste.

„Leikstjórinn hafði einfaldlega samband við mig, eftir að hafa heyrt eitthvað af tónlistinni minni,“ segir Jóhann, aðspurður um tildrög verksins. Við sitjum saman að morgni dags inni á kaffihúsi í miðbænum. Jóhann er hér á landi í stuttu stoppi en hann gerir út frá Danmörku, þar sem hann býr.

„Þannig fara svona verkefni venjulega í gang,“ heldur hann áfram. „Ég fékk síðan hráa útgáfu af myndinni til að vinna með, hálfgerðar línuteikningar. Þessi mynd er án tals; tónlistin rennur áfram allan tímann og hljóðheimurinn er því mikill hluti af henni. Það er tónlistarinnar, meira þá en í leiknum myndum, að búa til stemninguna og í raun segja söguna. Ég ákvað að nýta mér hljóðin sem heyrast í myndinni, dynki og umhverfishljóð, og vann það inn í tónlistina, sparlega þó.“

Heimsendir

Nálgast má stiklu úr myndinni á youtube og þar má sjá einhverskonar teiknimyndamús, í friði og spekt úti á engi. Andrúmsloftið breyttist svo allskyndilega; yfir leggjast iðnvæðingarhörmungar; svartur reykur; stálskrímsli og ómanneskjuleg rísahýsi.

„Fólk er gabbað í upphafi, fólk er leitt inn í sólbjartan heim með krúttlegum verum,“ útskýrir Jóhann. „En svo brestur á heimsendir. En svo birtist vonarglæta við endann.“

Jóhann segir stíl myndarinnar minna nokkuð á David Lynch, þá sérstaklega Eraserhead .

„Þessi „industrial“ drungi; svartur reykur o.fl.. Þegar ég ræddi við leikstjórann þá náðum við saman í þeirri stemningu. Svo eru japönsk „anime“ áhrif þarna líka, svona surrealiskur ævintýrabragur.“

Jóhann vann síðan tónlistina í nokkuð nánu samstarfi við Craste, fór til Englands nokkrum sinnum, fylgdist með hljóðvinnslunni og slíku.

„Þetta er alltaf svona „ping pong“ hvernig þetta er unnið. Við köstuðum á milli okkar hugmyndum og fundum einhvern flöt. Í þessu tilfelli var þetta mjög auðvelt þar sem við reyndumst vera á mjög svipaðri línu, smekklega. Þetta hefur mikið að segja um alla svona vinnu.“

Jóhann segist setja í nokkurs konar sjálfvirkan gír þegar hann byrjar að hugsa upp tónlistina fyrir svona verkefni. Hann horfi á myndirnar og sjái síðan bara hvað kemur.

„Mér finnst líka gott að semja á göngutúrum. Fara út að labba og melta hlutina. Það verður mikið til þar.“

Jóhann segist búa við þann lúxus að fólk komi til hans og sækist eftir hans tónlist.

„Öfugt við atvinnukvikmyndatónskáld sem semja í mörgum stílum og skreyta myndirnar eftir því sem henta þykir hverju sinni.“

Upptökur voru gerðar í Prag með Fílharmoníusveit borgarinnar og kór.

„Þetta er að stórum hluta tekið upp þar. Restina vann ég í hljóðverinu mínu í Danmörku.“

Meðfram vinnu við kvikmyndir og á milli hljómleikaferðalaga hefur svo ný tónlist verið að safnast í sarpinn.

„Ég hef verið að spila nýtt efni á tónleikum. Á síðasta ári samdi ég mjög mikið af tónlist; tvö kvikmyndaverkefni og það var mikil virkni í gangi (um er að ræða mexíkósku myndina By Day and By Night og dönsku myndina Drømme I København ). Ég spilaði mikið af Fordlândiu (síðasta hljóðversplata Jóhanns) á tónleikum, áður en ég fór í upptökur og mér finnst gott að prufa mig áfram þannig.“

Jóhann er hvergi nærri hættur samningu kvikmyndatónlistar, en næsta verkefni er fyrir bíómynd eftir Bill Morrison sem er unnin úr gömlum filmum sem tengjast kolanámuvinnslu í Norður Englandi.

„Hann vinnur úr filmum sem eru að grotna niður og úr verða flott mynstur og falleg. Hann vinnur mikið með tónskáldum og hefur unnið með Gavin Bryars, Gorecki og Steve Reich. Kolanámumenningin á þessu svæði tengist lúðrasveitatónlist sterkum böndum, það var lúðrasveit í hverjum bæ, iðulega skipuð kolanámumönnum og ég er sem sagt að fara að skrifa tónlist fyrir lúðrasveit.“

Auk þess er það næsta hljóðversplata...

„Ég veit ekki hvenær ég kemst almennilega í að klára næstu plötu. Ætli það verði nokkuð fyrr en um mitt ár 2011. En ég stefni að því að byrja upptökur í ár. Hugmynd að byggingu plötunnar er komin.“

Útgáfur ýmiss konar

Útgáfusaga plötunnar er nokkuð merkileg. Upphaflega lét Jóhann útbúa þúsund eintök sem hann gaf út sjálfur og seldi á tónleikaferðalagi sem hann fór í síðasta sumar. Útgáfufyrirtækið Type gaf hana svo út á vínyl rétt fyrir jól, á glærum vínyl. Þá höfðu bæst við lög og Jóhann gekk í að fullklára verkið. Sú útgáfa er í takmörkuðu upplagi. Geisladiskur frá Type er svo væntanlegur í apríl. Fjórða tilbrigðið er svo geisladiskur sem 12 Tónar gáfu út hér á landi skömmu fyrir jól.

„Þetta átti upprunalega að vera vínylútgáfa eingöngu,“ segir Jóhann. „Enda er þetta ekki „stór“ útgáfa þannig, þetta er kvikmyndatónlist, ekki næsta „alvöru“ plata mín ef ég má orða það svo. En viðbrögðin við tónlistinni voru það sterk að það var ákveðið að kýla á disk líka. Í kjölfarið á útgáfunni í apríl förum við í tveggja vikna túr um Bandaríkin og svo verða einhverjir tónleikar í Bretlandi, Ítalíu og Benelúx-löndunum líka.