Sigmundur Benediktsson orti fallegt kvæði á árinu til að kveðja mætan hagyrðing: HÁKON AÐALSTEINSSON (Farinn í ferðina miklu) Vesturöræfin stormur strýkur stynjandi sorgarróm, tregablandin þar fönnin fýkur í fjallamanns sporin tóm.

Sigmundur Benediktsson orti fallegt kvæði á árinu til að kveðja mætan hagyrðing:

HÁKON AÐALSTEINSSON

(Farinn í ferðina miklu)

Vesturöræfin stormur strýkur

stynjandi sorgarróm,

tregablandin þar fönnin fýkur

í fjallamanns sporin tóm.

Fossar tárast í freratrogum,

fangar í hamrasal.

Áin fellur með ekkasogum

ofan úr Hrafnkelsdal.

Leiðir skiljast þá lýkur degi

lífsins á gönguför.

Lengi þó augu mannsins megi

muna glettin og snör.

Sanngjarn og lipur sögumaður,

sífellt á stökum von.

Hress í bragði og hugumglaður

Hákon Aðalsteinsson.

Löngum var skáldsins fyndni föluð

að framleiða hlátur manns.

Meðan íslensk tunga er töluð

týnist vart orðspor hans.

Gamanmálin um gleðivökur

glæddi þá andi hreinn.

Sögur, ljóðin og leifturstökur

lifa, sem bautasteinn.

Blóm úr lautu og burkninn góði

binda þér ferðakrans.

Skógardísin þín ljúflingsljóði

lýkur við greinadans.

Ást til landsins og alls sem lifir

áfram þér varðar slóð.

Lífgjafans ströndum ljómar yfir

ljósbrydduð kærleiksglóð.