Málarinn og landslagið „Ég mála ekki eftir ljósmyndum - en þær eru hjálpartæki,“ segir Þorri Hringsson. „Þessar myndir eru málaðar inni eftir vinnu í höfðinu og á skissublöðum.“
Málarinn og landslagið „Ég mála ekki eftir ljósmyndum - en þær eru hjálpartæki,“ segir Þorri Hringsson. „Þessar myndir eru málaðar inni eftir vinnu í höfðinu og á skissublöðum.“ — Morgunblaðið/Einar Falur
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is ÞETTA er rómantíska útgáfan af Aðaldalnum.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

ÞETTA er rómantíska útgáfan af Aðaldalnum. Það er nokkuð mikið vatn og talsverð þoka; maður er úti í logni og horfir annaðhvort á Laxá líða fram eða gengur áfram í döggvotu grasi,“ segir Þorri Hringsson myndlistarmaður. Við göngum um milli málverkanna á sýningu hans, sem verður opnuð í Listasafni ASÍ í dag klukkan 15.00. Þetta eru málverk af formum og litum í náttúrunni, í Aðaldal. „Það eru margir dalir á Íslandi en það er bara einn sem er Aðal!“ segir Þorri og hlær.

Síðasta áratuginn hefur Þorri eytt öllum sumrum í Aðaldal, þar sem hann vinnur í vinnustofunni sem faðir hans, Hringur Jóhannesson, kom sér upp á æskuheimilinu, Haga.

„Ég hef verið fyrir norðan í þrjá, fjóra mánuði á hverju ári og málað. Málað og fundið myndefni. Ég vinn líka úr því í bænum á veturna.“

Þegar Þorri er spurður að því hvaða myndefni þetta sé, segir hann að í höfðinu séu myndir sem hann leiti að. „Þegar ég geng úti og sé eitthvað sem passar við þessa mynd, þá vel ég það sem myndefni.

Þetta eru myndir sem kvikna í höfðinu en eiga sér náttúrulega hliðstæðu; í mínu tilviki er það Aðaldalurinn.

Þegar myndin í höfðinu og myndin fyrir framan mig í náttúrunni fara saman, þá vil ég takast á við að mála hana. Úr þessu verður nokkuð stórt púsluspil og ég veit ekki enn hver heildarmyndin úr því verður.“

Tekst á við landslagshefðina

Þorri er að takast á við landslagshefðina.

„Í fyrsta lagi eru það áhrif frá pabba; ákveðinn natúralismi. Hann var nokkuð rómantískur en samt að mörgu leyti meiri raunsæismaður en ég. Á hinn bóginn eru áhrif frá skandinavísku gullaldarmálurnum, eins og Gustaf Fjaestad og Hammershøj. Það er þessi „plain air“-sýn, ákveðinn tærleiki. Leit að birtu og stemningu. Þegar ég er í Aðaldalnum finnst mér að þetta sé útgangspunkturinn. Það er eitthvað í náttúrunni sem mér finnst vera rétt, þetta er sýnin sem ég vil hafa. Samhljómur við þá mynd sem ég hef í höfðinu af Aðaldal.“

Tilbúið landslag Jóhannesar

Um leið og sýning Þorra Hringssonar verður opnuð í Ásmundarsal verður sýning Jóhannesar Dagssonar, Firnindi , opnuð í Gryfjunni, Arinstofu Listasafns ASÍ. Viðfangsefni Jóhannesar í ljósmyndaverkum og landkynningarmyndbandi er landslag sem er tilbúningur. Fyrirmyndin er sett innan sviga, ef svo má segja, og verða skynjun og upplifun þá meginatriði. Hvernig áhorfandinn velur að upplifa verkin er í forgrunni í stað þess að vera aðeins aðferð til að nálgast innihaldið.