Mig hefur lengi dreymt um að vinna við snyrtilegt skrifborð. Eina áramótaheitið að þessu sinni, fyrir utan það að elska áfram fjölskylduna af fremsta megni, er því að taka til á borðinu.

Mig hefur lengi dreymt um að vinna við snyrtilegt skrifborð. Eina áramótaheitið að þessu sinni, fyrir utan það að elska áfram fjölskylduna af fremsta megni, er því að taka til á borðinu. Það er að vísu ekki í fyrsta skipti sem gripið er til þessa heitis – en nú er komið að því að láta verkin tala.

Draumar geta nefnilega ræst, meira að segja stórir; ég trúi því eftir hið nýliðna, einkennilega ár; þrátt fyrir hrun, kreppu og sýnishorn af byltingu gat litla fjölskyldan mín, við hjónin og dæturnar þrjár, leyft okkur að gleðjast innilega nokkrum sinnum.

Fyrsti stóri draumurinn varð að veruleika á þjóðhátíðardaginn þegar elsta dóttirin setti upp hvíta kollinn. Næst ber að nefna draum sem rættist síðari hluta nóvember. Að vandlega íhuguðu máli var ákveðið, þrátt fyrir ástandið eða jafnvel vegna þess, að standa við loforð um ævintýri, sem vitað var að dæturnar myndu aldrei gleyma. Haldið var til þeirrar góðu borgar Liverpool í Englandi, þar sem við önduðum að okkur sögu samnefnds knattspyrnuliðs í nokkra daga og fundum hjartslátt Bítlanna (auk þess sem við kynntumst versluninni Primark þar sem eitt og annað kostaði bókstaflega ekki neitt þrátt fyrir slæma stöðu íslensku krónunnar).

Þriðji draumurinn rættist fljótlega eftir að fjölskyldan var komin aftur heim í heiðardalinn. Sá var reyndar í fleirtölu; Bikardraumar, bók sem karlmaðurinn á heimilinu hafði bjástrað við að setja saman síðustu misseri, umvafinn hlýju og þolinmæði kvennanna fjögurra. Hann , eins og karlmaðurinn er gjarnan kallaður heima fyrir, skrásetti í þessari bók sögu bikarkeppni KSÍ; hafði vissulega gaman af en verkefnið var tímafrekt og kostaði svita, tár og töluverð ferðalög. En það var þess virði.

Að vanda var fótboltinn líka fyrirferðarmikill hjá dætrunum. Þær yngri voru á ferðinni með góðum árangri, hvor annarri duglegri og uppskáru ríkulega á lokahófinu.

Aðstæður í samfélaginu hafa vitaskuld haft áhrif á okkur eins og aðra en andlegt ástand er þolanlegt og veraldleg gæði næg í bili.

Líkamlega er ástandið þokkalegt. Við vitum að góð heilsa er gulli betri og stundum þess vegna íþróttir af kappi til þess að styrkja líkamann og foreldrarnir til þess að sanna eigið ágæti og hæfileika umfram annað fólk á sama aldri. Ekki verður fullyrt hér um árangur þess erfiðis en heilsan er góð – ef frá eru taldir snúnir ökklar, bólgin hné, aumar mjaðmir og eymsli í baki, síðum og öxlum. Eitt og annað smálegt mætti og nefna að auki; miðdóttirin handleggsbrotnaði, konan líka þar sem hún datt á svelli og hann var fótlama í nokkra daga eftir að vöðvi í læri rifnaði þegar eigandinn vippaði sér of hratt úr buxunum fyrir körfuboltaæfingu! Yngsta dóttirin tók upp á því að æfa handbolta í haust og tognaði illa á úlnlið. Elsta dóttirin komst ósködduð frá árinu.

Láttu þig dreyma og trúðu. Fleira var það ekki í bili. skapti@mbl.is

Skapti Hallgrímsson

Höf.: Skapti Hallgrímsson