Þrír borgarfulltrúar sendu athugasemdir vegna fréttar Morgunblaðsins um mætingar á borgarstjórnarfundi. Í fréttinni var fjallað um mætingu borgarfulltrúa á þá fundi sem þeir sátu í heild, frá upphafi til enda, en ekki að hluta.

Þrír borgarfulltrúar sendu athugasemdir vegna fréttar Morgunblaðsins um mætingar á borgarstjórnarfundi. Í fréttinni var fjallað um mætingu borgarfulltrúa á þá fundi sem þeir sátu í heild, frá upphafi til enda, en ekki að hluta.

Júlíus Vífill Ingvarsson

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi, segir fréttina setta fram með villandi hætti. „Hið rétta er að ég hef mætt á 70 af 75 fundum borgarstjórnar samkvæmt samantekt skrifstofu borgarstjórnar. Ekki verður betur séð en að mæting mín í borgarstjórn sé meðal þess besta í slíkum samanburði eða 93%. Af einhverjum ástæðum kaus Morgunblaðið að líta einungis til þess hverjir voru viðstaddir við lok borgarstjórnarfundar en ekki hverjir mættu á fundina. Og af fréttinni má einnig skilja að þeir sem ekki voru í lok fundar hafi alls ekki mætt á borgarstjórnarfundinn, segir í athugasemdinni. Júlíus segir varaborgarfulltrúa gegna mikilvægu hlutverki og hann hafi glaður vikið sæti fyrir varaborgarfulltrúum um skemmri tíma og þá jafnan fylgst með þeirri umræðu sem þeir taka þátt í,“ segir í áréttingu hans.

Þorleifur Gunnlaugsson

Í athugasemd Þorleifs Gunnlaugssonar, borgarfulltrúa VG, kemur fram að hann tók við sem borgarfulltrúi 2. október 2007. Síðan þá hafi hann mætt á 47 af 51 fundi í borgarstjórn og verið skráður inn megnið af fundartímanum. Þá bendir hann á að 1. varaborgarfulltrúi fái laun sem nemi 70% af grunnlaunum borgarfulltrúa. Borgarstjórnarflokkur VG greiði umræddum varaborgarfulltrúa það sem upp á laun borgarfulltrúa vantar og hann sé því í fullu starfi. Varaborgarfulltrúinn taki þátt í að undirbúa mál og setjist ítrekað í stól borgarfulltrúa til að tala fyrir þeim. Á meðan víki annar borgarfulltrúinn sæti en fari ekki af svæðinu nema í undantekningartilfellum. „Af þessu hlýst enginn aukalegur kostnaður þar sem einn varaborgarfulltrúi er annars vegar á föstum launum hjá borginni og, í tilfelli okkar, á launum hjá borgarstjórnarflokki VG. Eftir sem áður er mæting á borgarstjórnarfundi af okkar hálfu góð og í mínu tilfelli um 91% síðan ég tók við sem borgarfulltrúi,“ segir í athugasemd hans.

Jórunn Frímannsdóttir Jensen

Jórunn Frímannsdóttir Jensen segir fréttina setta fram með afar villandi hætti. „Hið rétta er að samkvæmt samantekt skrifstofu borgarstjórnar hef ég mætt á 68 af 71 fundi, en ég var í veikindaleyfi á fjórum fundum. Samkvæmt því er ég með 95,7% mætingu í borgarstjórn.“ Varaborgarfulltrúar okkar gegni mikilvægu hlutverki í nefndarstörfum borgarinnar og komi oft inn á fundi borgarstjórnar með tillögur. Hún hafi hvatt þá til þess að taka virkan þátt í fundum borgarstjórnar og fylgja eftir málum sem varða störf þeirra og hafi ávallt verið tilbúin að víkja sæti á meðan. „Morgunblaðið kýs að líta eingöngu til þess hverjir voru viðstaddir við lok borgarstjórnarfunda en ekki hverjir mættu á fundina. Þá má einnig skilja af fréttinni að þeir sem ekki voru við lok funda hafi alls ekki mætt á borgarstjórnarfundi. Það er villandi framsetning,“ segir í áréttingu Jórunnar.