Óvænt Kristján Örn Sigurðsson er á ágætum samningi hjá Hönefoss, ef marka má umfjöllun norskra fjölmiðla um félagaskipti hans.
Óvænt Kristján Örn Sigurðsson er á ágætum samningi hjá Hönefoss, ef marka má umfjöllun norskra fjölmiðla um félagaskipti hans. — Morgunblaðið/Ómar
NORSKIR fjölmiðlar furða sig á því hvernig lítið félag á borð við Hönefoss fór að því að krækja í Kristján Örn Sigurðsson, landsliðsmiðvörð Íslands í knattspyrnu. Mann sem næststærsta félag Noregs, Brann, hafði ekki efni á að semja við.

NORSKIR fjölmiðlar furða sig á því hvernig lítið félag á borð við Hönefoss fór að því að krækja í Kristján Örn Sigurðsson, landsliðsmiðvörð Íslands í knattspyrnu. Mann sem næststærsta félag Noregs, Brann, hafði ekki efni á að semja við.

„Við erum með ákveðinn fjárhagsramma og áttum ekki möguleika á að verða við launakröfum Kristjáns,“ sagði íþróttastjóri Brann, Roald Bruun-Hansen, við Bergensavisen í gær.

Kristján hefur leikið stórt hlutverk í liði Brann undanfarin fimm ár og hafði um skeið gefið til kynna að hann hefði áhuga á að breyta til og spila í stærri deild en þeirri norsku. Samningur hans við Hönefoss kom því flestum í opna skjöldu.

Bergensavisen segir að Kristján fái 2,4 milljónir norskra króna, um 53 milljónir íslenskra, fyrir undirskriftina, og síðan 800 þúsund norskar krónur, tæpar 18 milljónir íslenskar, í árslaun. Heildarpakkinn nemi því rúmum 70 milljónum íslenskra króna á þessum tveimur árum.

Í herbúðum Hönefoss ríkir mikil ánægja með að þessi reyndi varnarmaður skuli vera kominn í leikmannahópinn.

Geir Håvard Solvang, framkvæmdastjóri Hönefoss, hitti Kristján Örn á Gardemoen flugvelli í fyrrakvöld. Kristján flaug þangað frá Bergen og þar var gengið frá samningum. Hann sagði við Ringerikets Blad að þegar það var í höfn hefði sér verið verulega létt.

Önnur félög voru komin í slaginn

„Þetta var mikil spenna því önnur félög voru komin í slaginn um Kristján. Nú höfum við gengið frá samningi sem við hefðum aldrei getað látið okkur dreyma um fyrir ári síðan. Þetta er afar sérstakt,“ sagði Solvang.

„Samningurinn við Kristján gefur okkur ákveðinn gæðastimpil, sérstaklega vegna þess að stærri félög, eins og Brann, blönduðu sér í baráttuna um hann,“ sagði Solvang og hafnaði því að launatölur Kristjáns væru eins og Bergensavisen og fleiri fjölmiðlar segðu. Hönefoss gæti greitt honum vel vegna þess að ekki þyrfti að kaupa hann af Brann. „En þessar tölur eiga ekki við rök að styðjast. Komið bara á næsta aðalfund hjá okkur og skoðið launatölurnar okkar,“ sagði framkvæmdastjórinn við Ringerikets Blad. vs@mbl.is