Sigurbjörg Guðnadóttir fæddist á Melum í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu þann 26.7. 1925. Hún lést þann 27.12. 2009. Foreldrar hennar voru Guðni Vilhjálmur Þorsteinsson, f. 2.7. 1883 í Jarlsstaðaseli í Bárðardal, d. 18.6. 1971 á Akureyri, bóndi á Melum, Skuggabjörgum og Hálsi í Fnjóskadal, síðast búsettur á Akureyri og kona hans Jakobína Kristín Ólafsdóttir, f. 2.3. 1890 á Syðra-Fjalli í Aðaldal, d. 8.1. 1967. Systkini hennar voru Hulda, f. 10.4. 1913, d. 11.11 2002, Jón, f. 1.3. 1915, d. 15.11. 2000, Sigrún, f. 23.4. 1917, d. 3.7. 1943, Mekkín, f. 4.5. 1920, Kristín, f. 22.10. 1927, og Guðrún Björg, f. 11.1. 1934, d. 26.11. 1991. Vorið 1928 fluttist hún með fjölskyldu sinni að Skuggabjörgum í Dalsmynni og bjó þar til 1938, þá var flutt að Hálsi í Fnjóskadal, en fluttu árið 1950 að Höfn á Svalbarðsströnd og seinast bjuggu foreldrar hennar á Akureyri. Sigurbjörg lauk barnaskólapróf í barnaskólanum í Skógum í Fnjóskadal og eftir fermingu var ýmist heima eða í vistum í Fnjóskadal, Bárðardal og Skagafirði. Veturinn 1944-1945 var í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal og árið 1948-1949 í Húsmæðraskólanum á Laugum. Árið 1947 réðst hún kaupakona að Suður-Hvoli í Mýrdal þar bjuggu þá hjónin Eyjólfur Guðmundsson, bóndi og rithöfundur, f. 31.8. 1870 í Eyjarhólum í Mýrdal, d. 16.10. 1954 og kona hans Arnþrúður Guðjónsdóttir, f. 21.12. 1872 á Þórustöðum í Eyjafirði, d. 3.10. 1962 á Suður-Hvoli. Þar kynntist hún Sigurði, yngsta syni þeirra hjóna, f. 21.1. 1915 á Suður-Hvoli, d. 8.9. 2000 og gengu þau í hjónaband á Akureyri, þann 27.6. árið 1952. Fyrsta búskaparárið bjuggu þau í Vestmannaeyjum, en haustið 1954 hófu þau búskap á Suður-Hvoli og bjuggu þar félagsbúi með systkinum Sigurðar, Önnu og Guðmundi, en árið 1981, tók Guðný, yngsta dóttir þeirra við búi þar. Þau eignuðust fjögur börn: Arnþrúði, f. 5.3. 1954 í Vestmannaeyjum, bókasafnsfræðing, búsetta í Reykjavík, Kristínu Jakobínu, f. 2.7. 1955 á Suður-Hvoli, ljósmóður og hjúkrunarfræðing, gifta Gunnari R. Ólasyni, f. 7.4. 1954 , dætur þeirra eru: Sigurbjörg Stella, f. 29.1. 1978, Anna Steinunn, f. 22.9. 1983 og Díana Hrund, f. 5.10. 1989, þau eiga tvö barnabörn. Eyjólf, f. á Suður-Hvoli 31.8. 1956, fulltrúa hjá Eimskip, kvæntan Ásdísi Gunnarsdóttur, börn þeirra eru: Emma Björg, f. 11.4. 1985 og Sigurður Örn, f. 4.5. 1987, þau eiga eitt barnabarn. Guðný, bóndi á Suður-Hvoli, f. 20.10 1961 á Suður-Hvoli, gift Kristjáni Ólafssyni, börn hennar eru: Sigurður Magnússon, f. 6.11. 1982, Sigurbjörg Magnúsdóttir, f. 13.11 1985, Guðmundur E. Kristjánsson, f. 28.9. 1997 og Jakobína Kristjánsdóttir, f. 20.12. 2000. Hún á 3 barnabörn.

Útför Sigurbjargar fer fram frá Skeiðflatarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Þú milljón sólna safn við himinskaut,

þú síblikandi undra stjarnaher,

þar dauðlegt augað aðeins sér

um eilífð skín þú, himnesk vetrarbraut,

ljóskrónan glæst und hvolfdu himinþaki,

hásalir töfra að norðurljósa baki

(Guðmundur Guðmundsson skólaskáld.)

Það er svo ótrúlegt að hún mamma mín skuli vera fallin frá, alveg fram til hinstu stundar var hún full af áhuga og framkvæmdagleði og aðeins tæpum tveimur tímum áður en hún andaðist var hún á sjúkrabeði að ræða um allt milli himins og jarðar við yngstu dóttur sína. En svona snögglega hefði hún viljað fara, þegar heilsan er á þrotum þá er ekkert betra en að sofna inn í hina eilífu dýrð Guðs.

Mamma var fædd á Melum í Fnjóskadal, en fluttist tæplega þriggja ára með fjölskyldu sinni að Skuggabjörgum í Dalsmynni og þar liðu hennar björtu bernskuár. Árið 1938 flutti fjölskyldan að Hálsi í Fnjóskadal og eftir fermingu fór hún að fara í vistir austur í Fnjóskadal og Skagafjörð, en var alltaf að öðrum þræði heima.

Árið 1947 fór hún í kaupavinnu að Suður-Hvoli í Mýrdal til hjónananna Eyjólfs Guðmundssonar og konu hans Arnþrúðar Guðjónsdóttur, þar kynntist hún Sigurði, yngsta syni þeirra hjóna og gengu þau í hjónaband hinn 27.6. árið 1952. Fyrsta árið bjuggu þau í Vestmannaeyjum, en fluttu að Suður-Hvoli árið 1954 og hófu búskap þar um haustið með systkinum hans, Önnu og Guðmundi.

Í minningunni finnst mér mamma hafa verið allt í öllu, hún var sístarfandi bæði úti og inni og umhyggjan óþrotleg og þess minnist ég nú og þakka. Hún var létt á fæti og í snúningum og ýmist að búverka innanbæjar og í næstu andrá þotin út í fjós eða skemmu og mér finnst hún vera að koma inn úr fjósinu að morgni dags með bros í brúnu augunum og segja „Er ekki hafragrauturinn tilbúinn?“

Ég veit að hann pabbi minn hefur lagt reiðtygin á hestana sína og farið að sækja hana á Stóra-Grána og haft Faxa sinn með sér og allir ástvinirnir sem horfnir eru bíða á hlaðinu og Jakobína amma og afi Guðni eru strax farin að undirbúa ferð í Gæsagilið á Skuggabjörgum með fulla nestiskörfu og þar verður glatt á hjalla þegar mamma gengur inn í hin eilífu Skuggabjörg

Arnþrúður.

Elsku fallega amma mín.

Þó að söknuðurinn sé mikill gleðst ég yfir því að nú ertu komin á góðan stað þar sem engar þjáningar eru og þér líður vel. Nú ertu búin að hitta fólkið okkar aftur sem hefur kvatt okkur í gegnum tíðina og allir hafa tekið á móti þér með miklum fögnuði og hlýju, líkt og þú tókst á móti öllum sem leituðu til þín. Ég veit það með vissu að afi hefur tekið á móti þér með opnum örmum, eflaust hefur hann verið búinn að sitja við rúmstokkinn hjá þér síðustu dagana og vaka yfir þér, en núna dansið þið aftur saman á himnum við undirspil englanna.

Elsku amma mín, þú kenndir mér svo margt og ég mun búa að því alla ævi, ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig að þessi 24 ár sem ég hef lifað, ég er ríkari en margur því að ég átti þig sem ömmu, betri ömmu er ekki hægt að hugsa sér. Þegar ég var lítil kenndir þú mér að lesa, ég var orðin fluglæs 4 ára, þú kenndir mér margföldunartöfluna, ég kunni hana alla áður en ég byrjaði í 1. bekk, þó að ég hafi aldrei verið gífurlegur stærðfræðisnillingur þá hef ég að minnsta kosti alltaf kunnað margföldunartöfluna upp á tíu og það er meira en margur getur sagt, mér fannst alltaf langskemmtilegast að segja þér frá þegar ég var búin að fá góðar einkunnir í stærðfræðinni, þú varst alltaf himinlifandi og stolt af mér!

Þú kenndir mér líka fyrstu bænirnar, það skipti þig miklu máli að við kynnum bænir og hefðum eitthvað til að trúa á þegar eitthvað bjátaði á, það hefur svo sannarlega reynst mér vel í gegnum tíðina. Nú kenni ég Patreki mínum það sem þú hefur kennt mér, það er ekki svo langt síðan þú spurðir mig hvort ég væri farin að kenna honum bænir, það mun ég svo sannarlega halda áfram að gera. Ég er svo endalaust þakklát fyrir að hann fékk þessi rúmu 2 ár til að kynnast þér, þú varst í miklu uppáhaldi, ferðirnar í hænsnakofann og rabarbaragarðinn, göngutúrarnir, kleinubaksturinn og allt sem þú gerðir fyrir okkur, ótrúlegustu hlutir og aldrei vafðist það nokkurn tíma fyrir þér og þér fannst ekkert vera fyrirhöfn ef við áttum í hlut, allt var svo sjálfsagt. Núna eru þetta okkur ómetanlegar minningar sem við yljum okkur við nú þegar þú hefur kvatt okkur.

Elsku besta amma mín, ég á svo margar góðar minningar um þig, ég mun aldrei gleyma þér og öllu því sem þú hefur gert fyrir mig og okkur öll. Minning þín mun lifa áfram, endalaust.

Mér finnst það eiga vel við að kveðja þig með þessari litlu bæn sem þú kenndir mér og við báðum svo oft fyrir svefninn þegar ég var lítil

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Hvíldu í friði, elsku besta amma mín, ég gleymi þér aldrei.

Þín nafna,

Sigurbjörg.

Elsku besta amma mín. Loks ertu laus við meinið sem fór svona illa með þig, alla tíð varst þú hinn mesti dugnaðarforkur sem ég hef á ævinni kynnst, þú sast aldrei auðum höndum. Að sjá þig svona veika eins og þú varst orðin í vetur var því mjög sárt og erfitt.

Þegar ég hugsa til þín sé ég þig fyrir mér standa í eldhúsinu á Hvoli eitthvað að fást við mat eða í gúmmístígvélunum á leiðinni að gefa hænunum eða sinna öðrum bústörfum. Já þú sást hreinlega um alla mögulega hluti sem þurfti að sjá um á bænum og þú varst alltaf að, gafst þér ekki mikinn tíma til að slappa af. Í huga mínum varst þú einhvers konar ofurkona því alltaf varst þú fyrst á fætur á morgnana og mjög oft búin að fara í fjósið að mjólka þegar við hin fórum á fætur. Þú fórst líka síðust að sofa og breiddir gjarnan yfir okkur börnin áður.

Á Hvoli var svo sannarlega gott að vera og sem krakki fannst mér það í raun vera toppurinn á tilverunni að fá að vera eftir í sveitinni hjá þér og afa. Þar voru dagarnir langir og næturnar stuttar því svo margt var gert á hverjum degi. Ég man hve skemmtilegir tímar þetta voru þegar við frændsystkinin lékum okkur saman allan daginn og hjálpuðum til við hin ýmsu bústörf. Mest held ég þó að hafi farið fyrir leik, fíflalátum og flissi. Alltaf var þó jafn yndislegt að koma inn til þín í glænýja mjólk og nýbakaðar kleinur og segja þér frá ævintýrum dagsins, svo var haldið út að leika á ný.

Ég verð að minnast á eldamennskuna þína því þú varst þekkt fyrir afbragðs matreiðslu. Mér fannst alltaf jafn ótrúlegt að sjá þig elda því þú notaðist aldrei við uppskriftir, heldur kunnir þú allar uppskriftir utanbókar. Í uppáhaldi hjá mér var samt kakósúpan sem ég fékk hjá þér með muldum tvíbökum út í. Ég minnist þess þegar ég sat við eldhúsborðið hjá þér og óskaði mér þess heitt og innilega að það væri kakósúpa í eftirmat. Enn þann dag í dag held ég mikið upp á þessa súpu. Auk þess man ég eftir að hafa hlakkað mikið til að fara í sveitina til þín því þá fengi ég hafragraut og rúgbrauð með rúllupylsu í morgunmat, þetta fannst mér alveg hreint dásamlegur morgunmatur og kunni vel að meta.

Elsku amma, ég kveð þig með söknuði.

Anna Steinunn.

„Hún er dáin, amma þín er dáin“ sagði mamma mín við mig rétt áður en mér tókst að sofna þann 27. desember síðastliðinn og við tók erfið nótt. Við fráfall ástvinar rifjar maður upp minningarnar sem viðkomandi skildi eftir sig og amma mín skildi eftir hafsjó af fallegum minningum. Þegar ég rifja upp barnæskuna eru mér minnisstæðastar allar heimsóknirnar að Hvoli, æsingurinn í mér og systrum mínum þegar það fór að sjást í Hvol frá veginum og við gátum ekki beðið eftir að komast út úr bílnum til að hitta ömmu og afa og knúsa þau. Faðmurinn hennar ömmu var alltaf opinn, sögurnar hennar og vísurnar sem hún kunni gat maður setið hugfanginn og hlustað á.

Í seinni tíð er mér minnistæðast samtalið sem við amma áttum fyrir örfáum árum þegar við sátum í gamla herberginu hennar og afa, hún með myndaalbúm í höndunum og sagði mér sögur úr æsku sinni, hvernig það vildi til að hún, sveitastelpa að norðan gerðist kaupakona í sveit og seinna meir settist þar að og bjó til sínar eigin minningar á Hvoli. Í sömu ferð minni austur gaf hún mér skírnarskeiðina sína sem mér þótti óskaplega vænt um þar sem hún geymir upphafsstafina okkar beggja. Amma mín var einstök kona, hjartahlý og hláturmild og þannig vil ég minnast hennar. Með þessum orðum vil ég kveðja þig, elsku amma mín, allar stundir mínar með þér verður mér ljúft að muna.

Sigurbjörg Stella Gunnarsdóttir.