Brestir í hjónabandinu Peter Robinson með eiginkonu sinni, Iris.
Brestir í hjónabandinu Peter Robinson með eiginkonu sinni, Iris.
Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.

Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

PETER Robinson, forsætisráðherra heimastjórnar Norður-Írlands, á nú undir högg að sækja vegna ásakana um að eiginkona hans, þingkonan Iris Robinson, hafi brotið lög sem skylda þingmenn til að skýra frá fjárhagslegum tengslum sínum.

Forsætisráðherrann hefur verið sakaður um að hafa látið hjá líða að skýra yfirvöldum frá lögbrotinu þegar hann komst að því að eiginkona hans hafði fengið 50.000 pund, sem samsvarar 10 milljónum króna, frá tveimur verktökum. Peningana notaði hún til að hjálpa nítján ára elskhuga sínum að hefja rekstur veitingahúss.

Peter Robinson kom fram í sjónvarpi á miðvikudagskvöld og skýrði grátklökkur frá því að hann hefði komist að framhjáhaldi eiginkonu sinnar í mars síðastliðnum þegar hún hefði reynt að fyrirfara sér. Hann kvaðst ætla að halda embætti forsætisráðherra og gera allt sem hann gæti til að bjarga 40 ára hjónabandi sínu.

Frú Robinson gaf einnig út yfirlýsingu þar sem hún játaði skammvinnt ástarævintýri með unga manninum sumarið 2008 þegar hann var nítján ára.

Í vikulegum fréttaþætti BBC um málefni Norður-Írlands kom fram að forsætisráðherrann reyndi að fá konu sína til að skila peningunum sem hún fékk til að hjálpa elskhuganum. Hann hefði þó látið hjá líða að skýra yfirvöldum frá málinu eins og honum hefði borið skylda til.

Veikir flokkinn

Talið er að málið veiki flokk Robinsons, Lýðræðisflokk Sambandssinna (DUP), nú þegar hann býr sig undir bresku þingkosningarnar í vor. Robinson varð leiðtogi flokksins í maí 2008 þegar klerkurinn Ian Paisley dró sig í hlé eftir að hafa farið fyrir flokknum frá stofnun hans 1971. Robinson hafði getið sér orð fyrir að vera mjög harðskeyttur stjórnmálamaður og óvæginn í árásum sínum á andstæðingana, en í sjónvarpsviðtalinu sáu Norður-Írar aðra hlið á honum: grátklökks manns sem hefur verið særður djúpt.

„Hræsnari ársins“

Iris Robinson hefur átt sæti á breska þinginu í átta ár en tilkynnti fyrir áramótin að hún hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri í vor vegna þunglyndis.

Frú Robinson hefur lýst sér sem trúræknum stjórnmálamanni og sagt að það sé skylda ríkisvaldsins að „staðfesta lög Guðs siðferðislega“. Hún olli miklu uppnámi meðal homma og lesbía í fyrra þegar hún lýsti samkynhneigð sem synd og sagði kynmök samkynhneigðra „viðbjóðsleg og ósiðleg“.

Ummælin urðu til þess að samtök samkynhneigðra kölluðu hana „hræsnara ársins í Bretlandi“.