Tómas Ingi Olrich
Tómas Ingi Olrich
Tómas I. Olrich: "Hvers vegna var skýrslan rangtúlkuð af aðstoðarmanni utanríkisráðherra sl. sumar og notuð til að styðja sjónarmið Breta og Hollendinga?"

EVA Joly hefur leitað, eins og fram hefur komið í fréttum, eftir upplýsingum um það hjá höfundum reglugerða Evrópusambandsins, hvort reglugerðarákvæði ESB um tryggingarsjóði innistæðueigenda ættu við um kerfishrun, eins og átti sér stað á Íslandi. Svar sérfræðinganna var skýrt. Þau ákvæði áttu alls ekki við. Joly dró af þessari yfirlýsingu þá ályktun að skoða þyrfti deilumál Íslendinga við Breta og Hollendinga frá grunni. Það sem Eva Joly er að segja með mjög áberandi hætti er eftirfarandi: Íslendingar hafa ekki rekið mál sitt á réttum forsendum gagnvart viðsemjendum sínum, Bretum og Hollendingum.

Þessi lýsing er í samræmi við niðurstöður Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndal. Sú niðurstaða er rúmlega eins árs gömul og styðst að talsverðu leyti við skýrslu frönsku bankanefndarinnar frá árinu 2000, sem er undirrituð af núverandi forstjóra Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet.

Hvað segir þessi skýrsla okkur? Hafa ber í huga að skýrslan er samin af bankanefnd Frakklands en ekki af ESB. Hins vegar eru tengsl bankanefndarinnar við ESB bein og augljós. Bankastjóri Frakklandsbanka kemur að stjórn Seðlabanka Evrópu. Frakkland er þungvigtarhagkerfi innan ESB. Niðurstöður skýrslunnar eru meðal megingagna í hagstjórn evrusvæðisins og ESB.

Skýrslan segir okkur að um átta árum áður en hrunið varð var Evrópusambandinu og Seðlabanka Evrópu fullkunnugt um að kæmi til kerfishruns, væru reglugerðir ESB um tryggingarsjóði innistæðueigenda ekki nothæfar og leita þyrfti annarra leiða. Þessir vankantar á lagaumhverfi, sem ESB og Evrópska efnahagssvæðið byggjast á, voru ekki færðir til betri vegar á þessum tæplega átta árum.

Á Íslandi varð kerfishrun. Allir bankar þjóðarinnar hrundu. Það gerðu þeir fyrir eigin tilverknað einkum, en bresk stjórnvöld hjálpuðu til að ýta bankakerfi Íslendinga fram af brúninni. Í kjölfarið voru Íslendingar beittir fjárkúgun og þeim þröngvað til að gangast við skuldbindingum sem ekki voru byggðar á lögmætum kröfum. Þrýstingurinn virðist hafa verið studdur af aðildarþjóðum Evrópska efnahagssvæðisins en verkfærið var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Ég hef álitið að fjárkúgun væri andstæð anda fjölmargra aðþjóðasamninga. Beiting slíkra verkfæra rúmast ekki innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, hún er ekki í samræmi við anda mannréttingasáttmála Evrópu, gengur gegn stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og á ekkert sameiginlegt með hugsjónum og grundvallargildum OECD-ríkja.

Ég veit ekki hvort íslenskum stjórnvöldum var kunn umrædd skýrsla frönsku bankanefndarinnar á ögurstundu, hinn 8. október 2008, í miðju moldviðrinu, þegar ríkisstjórn Íslands stóð ein gegn öllum. Hitt veit ég að skýrslan var, fyrir rúmu ári, í desember 2008, meðal þeirra gagna, sem ríkisstjórnin hafði, eða átti að hafa, aðgang að.

Var skýrslan kunngerð forsætisráðherra á þessum erfiðu tímum? Var hún meðal þeirra gagna sem samninganefndir íslenskra stjórnvalda beittu fyrir sig í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga? Hvers vegna var skýrslan rangtúlkuð af aðstoðarmanni utanríkisráðherra sl. sumar og notuð til að styðja sjónarmið Breta og Hollendinga?

Í störfum mínum sem sendiherra Íslands í Frakklandi kynntist ég ítrekað velvilja franskra stjórnvalda í garð Íslands. Þegar íslensk stjórnvöld bentu á að frönsk lög um flugvallarskatta, sem íþyngdu flugi til Íslands, brytu í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, brugðust frönsk stjórnvöld strax við því með faglegri athugun á málinu, sem reyndist Íslendingum í vil. Málið var afgreitt fljótt og faglega með lagabreytingu, án afskipta Evrópusambandsins. Ég veit að á velvilja Frakka í garð Íslendinga er hægt að treysta. En málflutningur Íslendinga verður að vera sannfærandi og studdur bestu rökum.

Franskir einstaklingar urðu fyrir tjóni vegna íslensku bankanna eða dótturfyrirtækja þeirra. En tjónið var lágmarkað vegna þess að eftirlitskerfi Frakka sýndi aðhald. Engir reikningar sambærilegir við Icesave-reikningana voru opnaðir í Frakklandi.

Höfundur er fv. sendiherra og ráðherra.