Þögli meirihlutinn Jón, Ögmundur, Ásmundur og Lilja tóku lítið þátt í umræðum á þingi.
Þögli meirihlutinn Jón, Ögmundur, Ásmundur og Lilja tóku lítið þátt í umræðum á þingi. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Unu Sighvatsdóttur una@mbl.is FJÓRIR ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tóku aldrei til máls á Alþingi í einu umdeildasta og umræddasta þingmáli sögunnar, Icesave-málinu.

Eftir Unu Sighvatsdóttur

una@mbl.is

FJÓRIR ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tóku aldrei til máls á Alþingi í einu umdeildasta og umræddasta þingmáli sögunnar, Icesave-málinu.

„Það er nú svo sem engin sérstök ástæða fyrir því,“ segir Jón Bjarnason, landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra, sem kaus að tjá sig ekki á þingfundum um málið.

„Þetta er nú svona mál sem er á ábyrgð annarra ráðherra að flytja inni í þingsal og það er nú gjarnan svo að hver ráðherra talar fyrst og fremst um mál sem heyra undir hans ráðuneyti.“ Auk þess hafi fjármálaráðherra verið viðstaddur alla umræðuna og andsvör og viðbrögð hafi því eðlilega verið á hans hendi. Aðspurður segir Jón ekki að neitt sérstakt samkomulag hafi verið ráðherranna á milli um að Steingrímur J. Sigfússon myndi einn tala um málið. „Hver sem er getur auðvitað komið inn í umræðuna en ef viðkomandi ráðherra og nefndarmenn eru til staðar taka þeir umræðuna nema eitthvað sérstakt sé. Þetta mál, þótt það hafi auðvitað áhrif á allt, kemur ekki með beinum hætti að málaflokkum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins.“

Ánægð með fjármálaráðherra

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra tók heldur aldrei til máls um Icesave og segist hún ekki hafa séð sig knúna til að bæta neinu við.

„Ég taldi nóg sagt. Steingrímur leggur fram frumvarpið og síðan eru það talsmenn okkar í fjárlaganefnd, utanríkismálanefnd og efnahags- og skattanefnd sem fara með málið fyrir þingflokkinn. Ég hafði ekki neinu við það að bæta og var bara ánægð með okkar talsmenn í málinu og sérstaklega fjármálaráðherra.“ Auk ráðherranna fjögurra er eftirtektarvert hversu lítið nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna leggja til málanna, þ.á.m. þau Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason sem töluðu hvort um sig í tvær mínútur þegar þau gerðu grein fyrir atkvæðum sínum. „Mér fannst bara afstaða mín til Icesave vera komin fram áður en við fórum í fyrirvarana,“ segir Lilja Mósesdóttir.

Fleiri leiðir til að segja skoðun sína

„Það er ekki bara í ræðum sem maður kemur sinni skoðun á framfæri.“ Lilja vísar m.a. í að bæði hafði hún skrifað grein í Morgunblaðið og síðar nefndarálit ásamt Ögmundi Jónassyni í efnahags- og skattanefnd.

„Svo tók ég tillit til þess að það eru mjög skiptar skoðanir í okkar röðum um þetta mál en á sama tíma vissu allir mína afstöðu, svo jú, mig klæjaði í fingurna að taka þátt í þessu en það var í sjálfu sér ekki ástæða til þess.“