Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is BJÖRGVIN Björgvinsson verður ekki á meðal keppenda á heimsbikarmótinu í svigi sem fram fer í Adelboden í Sviss á morgun.

Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

BJÖRGVIN Björgvinsson verður ekki á meðal keppenda á heimsbikarmótinu í svigi sem fram fer í Adelboden í Sviss á morgun. Hann hafði afþakkað þátttöku í mótinu fyrir nokkru en snerist hugur eftir góða frammistöðu í Zagreb á miðvikudaginn þar sem Björgvin varð í 24. sæti og náði sínum besta árangri frá upphafi. Það reyndist hinsvegar of skammur tími til stefnu og mótshaldarar í Adelboden gátu ekki bætt honum á keppendalistann.

Samt er nóg framundan hjá Dalvíkingnum því hann á eftir að keppa á þremur stórum heimsbikarmótum í þessum mánuði. Hann verður meðal þátttakenda í Kitzbühel í Austurríki sunnudaginn 24. janúar, í Schladming í Austurríki tveimur dögum síðar, og í Kranjska Gora í Slóveníu sunnudaginn 31. janúar.

Flottar aðstæður í Innerkrems

„Það var alltaf mjög ólíklegt að ég næði að komast inn á mótið í Adelboden fyrst ég var búinn að tilkynna að ég yrði ekki með. Það þarf að skrá sig með tveggja vikna fyrirvara, enda kom í ljós að það væri engu hægt að breyta. En ég hef í staðinn haldið fyrri áætlun, fór til Innerkrems í Austurríki og æfði þar við flottar aðstæður í dag,“ sagði Björgvin við Morgunblaðið í gær.

Með honum æfa í Innerkrems þeir Stefán Jón Sigurgeirsson, Árni Þorvaldsson og Sigurgeir Halldórsson, félagar hans í karlalandsliðinu.

Kærastan aldrei í afmælinu

Björgvin mun búa sig vel undir mótin þrjú sem framundan eru. „Það er spáð snjókomu á morgun svo ég reikna með því að við förum til Slóveníu, þar sem við höfum aðsetur í Petzen, og þar get ég haldið uppá þrítugsafmælið á mánudaginn. Við kærastan höfum verið saman í fjórtán ár en aldrei náð að halda uppá þennan dag saman því ég hef alltaf verið á skíðum einhvers staðar erlendis um þetta leyti árs,“ sagði Björgvin.

Heimilislegt í Petzen

Íslensku landsliðsmennirnir eru með fína aðstöðu í Petzen en Skíðasamband Íslands hefur verið með íbúð þar á leigu fyrir sitt fólk í hálft þriðja ár. „Við erum búnir að gera ansi heimilislegt þar, endurskipulögðum og endurbættum íbúðina sjálfir og þar er fínt að vera. Þetta er mjög þægileg staðsetning, við erum bara 15 mínútur þaðan á skíðasvæðið í Petzen,“ sagði Björgvin, sem kvaðst dvelja í þessari íbúð í um það bil 20 nætur á hverjum vetri.

Að lokinni mótatörninni um næstu mánaðamót kemur Björgvin heim til Íslands í stutt frí. „Síðan verður æft á Akureyri og heima á Dalvík í fimm til sex daga áður en við höldum vestur um haf til Vancouver,“ sagði Björgvin en hann verður á meðal keppenda á Ólympíuleikunum sem hefjast í kanadísku borginni 12. febrúar.