Ferðalangar Fargjöld sérleyfishafa eru endurskoðuð einu sinni á ári og gjaldskrá leigubíla tvisvar.
Ferðalangar Fargjöld sérleyfishafa eru endurskoðuð einu sinni á ári og gjaldskrá leigubíla tvisvar. — Morgunblaðið/ Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugfélögin áætla að aukinn eldsneytiskostnaður vegna nýs kolefnisgjalds nemi á bilinu 100-200 milljónum króna og undirbýr Iceland Express nú hækkanir vegna þessa viðbótargjalds á reksturinn.

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is

MISJAFNT er hve auðvelt er fyrir fyrirtæki í fólks- og vöruflutningum að færa kolefnisgjaldið, sem tók gildi nú um áramót, inn í verðskrá. Þannig mun kolefnisgjaldsins, samkvæmt upplýsingum frá Landflutningum, verða vart hjá vöruflutningafyrirtækjum um leið og nýjar eldsneytisbirgðir koma til landsins. Olíugjöld eru sérstakur liður í gjaldskrá sem leggst ofan á flutningsgjöld. Svo er hins vegar ekki hjá fyrirtækjum í fólksflutningum.

Hjá Iceland Express áætla menn að hækkun eldsneytisreikninga vegna kolefnisgjaldsins nemi um 100 milljónum kr. þetta árið.

„Við erum að undirbúa hækkanir vegna þessa og annarra gjalda,“ segir Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express. Forsvarsmenn Icelandair gera ráð fyrir 200 milljóna kr. kostnaðarauka vegna kolefnisgjaldsins. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um verðhækkanir. „Það kemur bara niður á eftirspurninni,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Engar ákvarðanir hafa heldur verið teknar um hækkun hjá Flugfélagi Íslands, en þar á bæ fylgjast menn þó grannt með þróun eldsneytisverðs og annarra aðfanga.

Samningsbundin langt fram í tímann

Hjá Strætó hefur engin ákvörðun verið tekin um gjaldskrárhækkun og fyrirtæki í ferðaþjónustu eru mörg bundin af samningum sem gerðir eru langt fram í tímann. „Markaðslega séð getum við í fyrsta lagi gert ráð fyrir hækkunum um næstu áramót,“ segir Kristján M. Baldursson, framkvæmdastjóri Trex, og Kynnisferðir gera ráð fyrir að verð samningsbundinna ferða geti í fyrsta lagi hækkað með haustinu. Öðru máli gegni hins vegar um styttri skoðunarferðir – verð þeirra sé endurskoðað á tveggja mánaða fresti.

Hjá þeim sérleyfishöfum sem styrktir eru af Vegagerðinni er gjaldskrá yfirleitt endurskoðuð einu sinni á ári. „Fargjöldin hækkuðu um 8,5% nú um áramótin,“ segir Óskar Stefánsson, framkvæmdastjóri Bíla og fólks, „svo það breytist ekki aftur fyrr en að ári.“

Gjaldskrá endurskoðuð tvisvar á ári

Hjá hverri leigubílastöð er starfrækt verðlagseftirlit, sem tekur gjaldskrána til endurskoðunar tvisvar á ári. Hjá verðlagsnefnd Hreyfils er verið að endurskoða gjaldskrána og verður ákvörðunin kynnt í febrúar. Þar á bæ telja menn líklegt að einhverjar hækkanir verði.

Verðlagsnefnd BSR hækkaði gjaldskrána í gær og segir Róbert Geirsson bifreiðastjóri, sem á sæti í verðlagsnefndinni, hækkanirnar sex mánuðum á eftir vísitöluhækkun. „Við hækkuðum gjaldskrána um 5%, sem er í raun bara vísitöluhækkun. Á síðasta ári nam heildarhækkun vísitölu 9% og við vorum áður búnir að hækka verðskrána um 4%.“

Í hnotskurn
» Frá og með síðustu áramótum nemur kolefnisgjald 2,90 kr. á hvern lítra af gas- og dísilolíu, 2,60 kr. á lítrann af bensíni og 2,70 kr. á lítrann af flugvéla- og þotueldsneyti.
» Kolefnisgjaldið reiknast á eldsneytisbirgðir við komuna til landsins.
» Ekki hafa öll fyrirtæki sömu möguleika á að velta hækkuninni beint út í verðlagið.
» Meðal þeirra fyrirtækja sem kynnt hafa verðhækkanir „vegna kostnaðarhækkana við rekstur bifreiða“ er Fóðurblandan hf. sem hækkaði flutningsverð um 5%.