Endurskipulagning Úrval-Útsýn er meðal þeirra fyrirtækja sem eru undir hatti Ferðaskrifstofu Íslands, sem á von á auknu hlutafé frá eigendum.
Endurskipulagning Úrval-Útsýn er meðal þeirra fyrirtækja sem eru undir hatti Ferðaskrifstofu Íslands, sem á von á auknu hlutafé frá eigendum. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þórð Gunnarsson thg@mbl.is FJÁRHAGSLEGRI endurskipulagningu Ferðaskrifstofu Íslands (FÍ) mun að öllum líkindum ljúka eftir helgi. FÍ er í eigu athafnamannsins Pálma Haraldssonar í gegnum félagið Feng. Fengur er jafnframt eigandi Iceland Express.

Eftir Þórð Gunnarsson

thg@mbl.is

FJÁRHAGSLEGRI endurskipulagningu Ferðaskrifstofu Íslands (FÍ) mun að öllum líkindum ljúka eftir helgi. FÍ er í eigu athafnamannsins Pálma Haraldssonar í gegnum félagið Feng. Fengur er jafnframt eigandi Iceland Express. Undir FÍ eru mörg þekktustu vörumerki ferðaþjónustu á Íslandi, til að mynda Úrval-Útsýn og Plúsferðir.

Fyrir ári var greint frá því að Iceland Express hefði keypt FÍ, en síðarnefnda félagið átti þá í miklum skuldavandræðum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins námu skuldir félagsins tæplega hálfum milljarði króna. NBI breytti þá langstærstum hluta skulda félagins gagnvart bankanum í hlutafé. Nú er áætlað að Fengur komi með nýtt hlutafé inn í félagið til að bæta eiginfjárstöðu þess. Hlutafé NBI í FÍ verður jafnframt fært niður að langmestu leyti. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var ekki gerð tilraun til að selja FÍ, enda er inni í félaginu talsvert af skuldum gagnvart öðrum en bankanum og verðmæti þess því hverfandi. Forstjóri FÍ, Þorsteinn Guðjónsson, segir að með endurskipulagningunni sé fjármögnun félagsins tryggð og staða þess sterk.

Þann 20. nóvember sl. heimilaði Samkeppnisstofnun samruna FÍ og Fengs í skilningi samkeppnislaga. Engar skuldir eða eignir hafi þó færst á milli félaganna.

Hlutafélagið Fengur var stofnað fyrir bankahrun, og þegar félagið var fært yfir í NBI við uppskiptingu bankanna voru um 75% skulda þess skilin eftir í gamla bankanum.