Svanur Hjartarson fæddist í Fremri-Vífilsdal, Dalabyggð 25. júní 1940. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 2. janúar síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Hjörtur Kjartansson f. 2. janúar 1918, d. 12. júní 1982 og Sigríður Guðbjörg Sigurðardóttir, f. 28. febrúar 1920, d. 10. júlí 2003. Systkini Svans eru: Hulda Heiðdal, f. 3. júlí 1939, Haraldur Bjarni, f. 29. október 1943, Svava Heiðdal, f. 28. apríl 1947, Hugrún Otkatla, f. 1. ágúst 1950 og Hörður, f. 19. febrúar 1958.

Svanur giftist 22. nóvember 1964, Eddu Tryggvadóttur frá Arnarbæli, Dalabyggð. Foreldrar hennar Tryggvi Gunnarsson, f. 12. desember 1884, d. 16. ágúst 1954 og Elísabet Þórólfsdóttir, f. 20. nóvember 1917.

Börn Svans og Eddu eru: 1) Elísabet Svansdóttir, f. 20. nóvember 1963, maki Magnús A. Jónsson. Börn a) Ottó Ólafsson, maki Linda B. Sveinsdóttir, börn þeirra Sveinn Mikael Ottósson og Embla Rut Ottósdóttir b) Telma Fanney Magnúsdóttir og c) Birta Magnúsdóttir. 2) Sigurður Svansson, f. 23. maí 1966, maki Ólöf Eðvarðsdóttir. Börn a) Eðvarð Sigurður Halldórsson og b) Ólafur Örn Halldórsson og c) Svanur Ingi Sigurðsson. 3) Bryndís Svansdóttir, f. 27. maí 1968, maki Halldór L. Arnarson. Börn a) Leó Freyr Halldórsson og b) Rakel Rós Halldórsdóttir. 4) Arnar Svansson, f. 28. apríl 1977, maki Sólrún L. Þórðardóttir. Börn a) Sigurður Pálmi Sigurðsson, b) Natalía Enika Scheving, c) Ragnheiður Eik Scheving og d) Edda Emelía Arnarsdóttir.

Svanur ólst upp í Fremri-Vífilsdal. Árið 1963 byggðu Svanur og Edda sér heimili í Búðardal, þar sem þau hafa átt heimili síðan ásamt því að koma sér upp aðstöðu fyrir fjölskylduna í Arnarbæli, Dalabyggð. Fjölskyldan hefur þar í sameiningu sinnt fjár- og hlunnindabúskap frá 1970. Svanur var bifreiðarstjóri lengst af sínum starfsferli. Fyrst hjá Kaupfélagi Hvammsfjarðar og seinna undir eigin nafni. Síðustu árin vann hann sem verktaki við hin ýmsu tækja- og vélastörf.

Útför Svans fer fram frá Hjarðarholtskirkju í dag, laugardaginn 9. janúar 2010 og hefst athöfnin kl. 14.

mbl.is/minningar

Elsku pabbi, það má með sanni segja að það var enginn eins og þú. Við munum minnast þín eins og þú varst, orkumikill og með mikinn lífsvilja. Þú áttir alla tíð erfitt með að sitja auðum höndum og varst þrátt fyrir erfið veikindi farinn að hugsa um vorverkin sem biðu fjölskyldunnar. Það er því erfitt fyrir okkur að kveðja þig.

Við munum aldrei gleyma þér og minning um góðan eiginmann, föður, tengdaföður og afa mun lifa áfram eins og þú varst.

Þegar dimmt er yfir öllu, engin dagrenn ing er nær,

og döpur hugsun eyðir von og trú.

vakna minningarnar um þig, eins og stjarna björt og skær

því ég veit að það er enginn eins og þú.

Eins og stjarna sem hrapar um nótt

þú lýstir leið en svo fórstu allt of fljótt

En ég á minningar sem enginn getur tekið frá mér nú

því það er enginn alveg eins og þú.

(Magnús Eiríksson.)

Við munum í sameiningu faðma og vernda móður okkar, sem var þér svo náin og kær.

Guð geymi þig, elsku pabbi.

Þín börn,

Elísabet, Sigurður, Bryndís, Arnar og fjölskyldur.

Yndislegi tengdapabbi minn.

Takk fyrir allar frábæru stundirnar og allar góðu minningarnar sem þú hefur gefið mér.

Takk fyrir að vera börnunum mínum óendanlega góður afi.

Takk fyrir að vera Arnari mínum besti pabbi í heimi.

Takk fyrir að vera frábærasti tengdapabbi sem nokkur getur átt.

Með hjartað fullt af gleði yfir því að hafa fengið að kynnast þér kveð ég þig, elsku Svanur minn.

Hvíldu í friði.

Þín tengdadóttir

Sólrún.

Elsku afi minn.

Mig langar að þakka þér fyrir allar stundirnar sem við höfum átt saman.

Þegar ég hugsa um þig er það fyrsta sem kemur í hugann góðsemd, hlýja og vinnusemi. Þú varst alltaf með eitthvað fyrir stafni og þau eru orðin ófá skrefin sem ég gekk á eftir þér út í Arnarbæli og í eyjunum frá unga aldri, því það var alltaf eitthvað nýtt sem maður gat lært. Lítill langafastrákur bættist svo í hópinn og fannst honum ekki síður gaman að fá að vera með langafa í sveitinni.

Okkur Lindu og börnunum þótti alltaf svo notalegt að vera hjá ykkur ömmu og spjalla í rólegheitum og verður þín sárt saknað úr þeim hópi. Ég er svakalega þakklátur fyrir dagana sem við áttum með þér um jólin því kveðjustundin var stutt þegar kallið kom. Við munum hugsa um ömmu fyrir þig, reyna að bera höfuðið hátt og horfa fram á veginn, því það var þér efst í huga.

Elsku afi, litla fjölskyldan mín kveður þig með miklum söknuði, hvíl þú í friði.

Ottó Ólafsson.

Afi minn í huga mér,

ég gleymi honum aldrei.

Afi minn ég þakka þér,

fyrir allar stundir.

(EEA 2010.)

Elsku afi minn.

Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Það var svo gaman að fara með þér að veiða, fara með þér útí eyjarnar, fara með þér og ömmu í útilegur og útí Arnarbæli. Mér fannst líka æðislega gaman að fara með þér á fjórhjólið. Þú kenndir mér svo mikið og varst alltaf svo góður við mig. Ég mun alltaf sakna þín og minnast okkar góðu stunda.

Ég elska þig, afi minn.

Hvíldu í friði.

Þín

Edda Emelía Arnarsdóttir.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Valdimar Briem.)

Í dag verður til grafar borinn góður vinur og félagi til margra ára.Við höfðum þekkst frá unga aldri, en leiðir okkar hafa legið saman um fjörutíu ára skeið eða síðan við hjónin fluttumst í Dalina.

Ég ætla ekki að fara yfir lífshlaup Svans en vil á þessari stundu þakka honum fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Svanur varflutningabílstjóri hjá Kaupfélaginu og keyrði þá út vörur um sveitina, síðan fórum við að vinna saman, en við vorum báðir með kindur í eyjum. Það var mikill fengur fyrir mig sem uppalinn landkrabba að fá að vera með honum við þau störf. Við stunduðum minkaveiðar í nokkur ár og á hverju vori var farið í okkar eyjar. Þá gat gengið á ýmsu enda báðir miklir veiðimenn og þegar maður kemst í ham getur ýmislegt gerst, enda þótti það tíðindum sæta ef menn komu þurrir í land. Þá voru ófáar næturnar sem Svanur lá fyrir tófu í Arnarbæli. Þegar Óli mágur hans hóf búskap í Dagverðarnesi sáum við Svanur um aðdætti til hans og oft voru það sannkallaðar ævintýraferðir að koma vistum til hans á veturna.

Nú síðari ár var hann ekki í fastri vinnu en var alltaf til taks í það sem til féll á gröfunni sinni, í akstri við vegagerð, hann var hjá mér í rútuakstri og þá var vel setinn bílstjórastóllinn og ákaflega gott að fá svo traustan mann, enda maðurinn gætinn og traustur bílstjóri og þægilegur í umgengni og hugsaði vel um farþegana.

Svanur var vinnualki, hann var alltaf eitthvað að vinna í kringum sín áhugamál, þegar hann var ekki að vinna hjá öðrum og voru margar ferðirnar sem hann fór út í Arnarbæli, fyrst að aðstoða tengdamóður sína og seinni árin þegar þau hjónin voru tekin við jörðinni.

Með þessum fátæklegu kveðjuorðum viljum við þakka þér samfylgdina í gegnum árin.

Elsku Edda, Elsa, Siggi, Bryndís, Arnar, makar, og börn, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur, með þakklæti fyrir allt í gegnum árin.

Breiðafjarðar byggðin kær,

blessuð vertu stundir allar.

Okkar ljúfi bernsku bær

brattar hlíðar, eyjar, sær,

engið, tún og elfan tær

elsku drottins til sín kallar.

Breiðafjarðar byggðin kær,

blessuð vertu stundir allar.

Friðgeir Sveinsson,

Þóra og Sveinn, Staðarfelli.

Elsku afi, þú sofnaðir á spítalanum. Ég vorkenni ömmu minni og við afastelpurnar þínar fórum að gráta.

Ég ætla að hugsa til þín á hverjum degi.

Þín

Birta Magnúsdóttir.

Hinsta kveðja

Elsku afi, ég sakna þín og þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Guð geymi þig.

Þín

Rakel Rós Halldórsdóttir.