<strong>Allir sáttir?</strong> Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagðist hafa verið talsmaður þess að leitað væri sátta. 
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist einnig vera maður sátta, en var ósáttur við sáttarhönd Bjarna.
Allir sáttir? Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagðist hafa verið talsmaður þess að leitað væri sátta. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist einnig vera maður sátta, en var ósáttur við sáttarhönd Bjarna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Silju Björk Huldudóttur og Hlyn Orra Stefánsson FLJÓTT og vel gekk að afgreiða frumvarp til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ríkisábyrgðar á Icesave sem forseti synjaði nýverið staðfestingar.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

og Hlyn Orra Stefánsson

FLJÓTT og vel gekk að afgreiða frumvarp til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ríkisábyrgðar á Icesave sem forseti synjaði nýverið staðfestingar.

Frumvarpið var samþykkt samhljóða með atkvæðum 49 þingmanna um kvöldmatarleytið í gær, en veigamesta breytingin á frumvarpinu í meðförum þingsins var að spurningunni, sem lögð verður fyrir þjóðina, var breytt að tillögu allsherjarnefndar.

Ljóst þykir nú að ekki verði hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu hinn 20. febrúar, en það er ein þeirra dagsetninga sem dómsmálaráðherra hefur nefnt. Samkvæmt lögunum skal kosið svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en laugardaginn 6. mars.

Framundan er að vinna að kynningarefni vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar, en dómsmálaráðuneytið mun hafa milligöngu um að fá utanaðkomandi aðila til verksins.

Samkomulag um afgreiðslu

Yfirlýst markmið fyrsta fundar Alþingis á nýju ári var aðeins eitt; að samþykkja áðurnefnt frumvarp. Fram kom í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að formenn flokkanna á Alþingi hefðu náð með sér samkomulagi þess efnis að afgreiða málið á einum degi.

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir lagafrumvarpinu. Hún sagði brýnt að samþykkja það fljótt þannig að strax væri hægt að hefjasta handa við undirbúning utankjörfundaratkvæða. Eftir fyrstu umræðu fór málið til umfjöllunar í allsherjarnefnd og þaðan síðan í aðra og þriðju umræðu.

Þegar í upphafi fundar kom fram að þingmenn stjórnarandstöðunnar hygðust nota þingfundinn til þess að fara almennt yfir stöðuna sem upp væri komin jafnframt því að ræða um komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig sagðist Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, ekki eiga von á því að mikill ágreiningur yrði um sjálft lagafrumvarpið um þjóðaratkvæðagreiðslu. „En það er erfitt að ræða þetta frumvarp án þess að setja hlutina í heildarsamhengi og ræða samningana sjálfa sem bera á undir þjóðina og það hvað við í stjórnarandstöðu höfum verið að segja í kjölfar synjunar,“ sagði Bjarni.

Ná sátt eða fara dómstólaleið

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagðist reiðubúinn að ná sáttum milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en tók fram að ekki væri að heyra á formanni Sjálfstæðisflokks að hann vildi sættir. Hann kallaði eftir því að Bjarni talaði skýrt um hvað það væri sem hann vildi; það væri alls ekki skýrt þar sem hann væri stöðugt að skipta um skoðun um hvernig afgreiða ætti Icesave-málið.

Bjarni spurði á móti hvað ríkisstjórnin vildi. „Ég hef verið talsmaður þess að við leituðum sátta, en takist það ekki er þá ekki augljóst að fara eigi dómstólaleiðina? Það er engin mótsögn í þessu. Vilji menn ekki láta reyna á samstöðu í málinu er sjálfsagt að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin mun senda ríkisstjórninni skýr skilaboð.“

Í hnotskurn
» Gert er ráð fyrir að gengið verði til kosninga annaðhvort 27. febrúar eða 6. mars.
» Alls eru um 10 þúsund kosningabærir Íslendingar búsettir erlendis sem rétt eiga á að kjósa utan kjörfundar.
» Dómsmálaráðherra telur mögulegt að utankjörfundir geti hafist 25. janúar.

Breið sátt eitt skilyrða

„ÉG fyrir mitt leyti legg mikla áherslu á að gildandi stjórnarskrá sé fylgt í hvívetna og úr því að þessi ákvörðun forseta liggur fyrir er stjórnvöldum enginn annar kostur fær en að búa svo um hnútana að þjóðaratkvæðagreiðsla geti átt sér stað hnökralaust svo fljótt sem auðið er,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Í framsögu sinni gagnrýndi hún stjórnarandstöðuna fyrir að tala fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir áramót í þeim tilgangi einum, að því er virtist, að reyna að stöðva framgang Icesave-laganna. „En þegar forsetinn gerði alvöru úr því að beita málskotsréttinum sneru þessir þingmenn sem áður töluðu sig heita fyrir þjóðaratkvæði gjörsamlega við blaðinu og telja nú betra að semja um málið á nýjan leik en að þjóðin fái að kjósa um það,“ sagði Jóhanna.

Tók hún fram forsenda þess að hún væri reiðubúin að skoða þá leið að setja lögin ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu væri annars vegar að um það skapaðist breið sátt, ekki aðeins innan þings heldur einnig milli þings og þjóðar, en einnig þyrftu að koma til „meginbreytingar á forsendum, s.s. eins og nýtt og raunhæft samningaferli [við Breta og Hollendinga] sem gæti leitt til nýrra lausna á skömmum tíma“.

Dapurlegt að hafna samstöðu

„ÞAÐ stendur sko aldeilis ekki á okkur að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, í fyrstu umræðu um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hann ljóst að þjóðin myndi greiða atkvæði með hagsmunum sínum í þessu máli og hagsmunir Íslands gætu aldrei falist í því að greiða atkvæði með þvingunum og kúgun.

Bjarni tók fram að sér þætti dapurlegt að ríkisstjórnin hafnaði samstöðu með stjórnarandstöðunni gegn kúgun þeirra ríkja sem harðast hafa sótt fram í málinu.

Sagði hann óskiljanlegt að ekki væri lögð aukin áhersla á það að fara með málið fyrir dómstóla þar sem láta mætti reyna á réttarstöðu Íslendinga. Sagði hann ekki hægt að saka Íslendinga um að hafa ekki sýnt sanngirni, þar sem Alþingi hafi m.a. boðið ríkisábyrgð. Á sama tíma sakaði hann viðsemjendur Íslendinga um óbilgirni og skort á sanngirni.

Slegið á útrétta sáttahönd

„ÞAÐ er að renna upp fyrir mér að líklega var það ofmat, bæði hjá stjórnarandstöðunni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að bjóða upp á samstarf við ríkisstjórnina til að reyna að fá betri samning,“ sagði Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.

„Forsætisráðherra er að núa okkur því um nasir að hafa skipt um skoðun [varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu]. Þeir sem tala svona vilja enga sátt og ekkert samstarf. Það er verið að ýta stjórnarandstöðunni frá en ekki taka í útrétta sáttahönd stjórnarandstöðunnar. Það er verið að slá á hana með þessu tali, þannig að við skulum bara fara að tala um þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa,“ sagði Siv og bætti við: „Við eigum bara að fara í hörkubaráttu og reyna að koma því þannig fyrir að fólkið segi „nei“ til þess að efla samningsstöðu Íslands.“ Siv rifjaði upp ummæli Evu Joly þess efnis að samtöl hennar við höfunda evróputilskipunarinnar um innstæðutryggingakerfið hefðu leitt í ljós að tilskipunin hefði ekki átt að eiga við þegar bankakerfi heillar þjóðar hryndi. „Eva Joly segir líka að Bretar og Hollendingar komi ekki vel fram við okkur. Það þarf að semja betur. Þetta er þjófnaður á almannafé.“