Anna Sigurlásdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 18. jan. 1933. Hún lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 2. jan. síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Sigurlás Þorleifsson verkamaður í Vestmannaeyjum, fæddur á Miðhúsum í Hvolhreppi þann 13. ág. 1893, d. 27 nóv. 1986 og Þuríður Vilhelmína Sigurðardóttir húsmóðir f. 31. okt. 1907 í Garðabæ Vestmannaeyjum, d. 27. júlí 1992. Þau bjuggu lengst af á Reynistað í Vestmannaeyjum.

Anna var fjórða í röð 15 alsystkina frá Reynistað. Systkini Önnu eru: Silla, Eggó (látinn), Lilli, Kiddý, Ásta, Olla, Jóna, Gústi, Helgi, Reynir (látinn), Erna (látin), Maddý, Geir, og Linda, einnig átti hún þrjú hálfsystkini samfeðra: Margrét Freyju, Huldu og Baldur.

Anna giftist Jónatani Aðalsteinssyni stýrimanni á sjómannadaginn árið 1953. Jónatan fæddist 19. júlí 1931 á Siglufirði og lést 4. des. 1991 í Vestmannaeyjum. Börn þeirra eru Sigþóra f. 1953, í sambúð með Gísla Sig. Eiríkssyni, búsett í Vestmannaeyjum. Aðalsteinn f. 1958, giftur Þóru Björg Thoroddsen, þau eru búsett í Bandaríkjunum. Þór Vilhelm f. 1973, giftur Evu Hrönn Guðnadóttir, búsett í Reykjavík. Ömmubörnin eru sex og langömmubörnin einnig sex

Anna og Jónatan byggðu sér myndarlegt heimili að Brimhólabraut 37 í Vestmannaeyjum þar sem þau bjuggu lengstan hluta lífs síns.

Anna hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum og var markvörður þegar íþróttafélagið Týr vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í handknattleik kvenna árið 1952. Anna vann einnig mestan hluta ævi sinnar utan heimilisins við hin ýmsu störf, en lengst var hún hjá Vinnslustöðinni í Eyjum

Útför Önnu fer fram í dag, laugardaginn 9. janúar, frá Landakirkju í Vestmannaeyjum.

mbl.is/minningar

Kynni mín af Önnu Sigurlásdóttur, sem við kveðjum hinztu kveðju í dag, hófust árið 1988, er sonur hennar, Aðalsteinn Jónatansson gekk að eiga dóttur mína, Þóru Björgu Thoroddsen. Féll strax vel á með okkur, því að hún hafði góða nærveru, þótt engin væri hún málrófsmanneskja. Hún var af þeirri gerð Íslendinga, er vilja láta verkin tala, en ekki orðin. Hún var dugleg og tilheyrði þeirri kynslóð íslenzkra kvenna, er mestan hluta ævi sinnar vann tvöfalda vinnu, störfin inni á heimilinu en utan þess gekk hún til fiskvinnu, þegar hana var að fá í Eyjum, þar sem hún var fædd og uppalin og dvaldist alla sína ævi, ef undan er skilinn sá tími, er hún þurfti, eins og aðrir, að yfirgefa heimastöðvaranar vegna Vestmannaeyjagossins. En hún fluttist aftur til Eyja ásamt fjölskyldu sinni strax og það var unnt. „Römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til.“

Anna Sigurlásdóttir var vönduð manneskja til orðs og æðis, nokkuð dul og átti afar erfitt með að biðja aðra um að gera sér greiða, sjálfsagt minnug þess, að sjálfs er höndin hollust. Orðtakið: „Deep waters run still“ segir sína sögu um skapgerð hennar.

Anna var meðalmanneskja á hæð, grannvaxin og samsvaraði sér vel. Hún var létt á fæti og kvik í hreyfingum, enda þurfti hún snemma að taka til hendinni og venjast vinnu, þar sem hún var ein af 15 alsystkinum í fjölskyldu, sem segja má, að hafi verið milli fátæktar og bjargálna, eins og algengt var hjá verkafólki á þeim árum, þegar hún var að alast upp. En með dugnaði, sparsemi, nægjusemi og sjófangi hafðist þetta, enda hafa þessir þættir ævinlega gefizt þjóðinni bezt í gegnum aldirnar, og svo mun áfram. Á það erum vér Íslendingar rækilega minntir um þessar mundir.

Ég vil að endingu þakka Önnu Sigurlásdóttur samfylgdina og elskuleg kynni.

Öllum ástvinum hennar sendum við Sólveig innilegar samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Önnu Sigurlásdóttur.

Magnús Thoroddsen.