Leigjandi Hjalti Jónasson er einn leigjenda við Brúnaveg. Honum finnst leigan há en líkar vel í húsinu.
Leigjandi Hjalti Jónasson er einn leigjenda við Brúnaveg. Honum finnst leigan há en líkar vel í húsinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
ÞAÐ kostar álíka mikið að búa á íburðarlitlu hóteli í Reykjavík í heilan mánuð með morgunverði og leigja þjónustuíbúð fyrir aldraða.

ÞAÐ kostar álíka mikið að búa á íburðarlitlu hóteli í Reykjavík í heilan mánuð með morgunverði og leigja þjónustuíbúð fyrir aldraða. Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær eru þess dæmi að leigan í þjónustuíbúðum aldraðra við Brúnaveg í Reykjavík sé ríflega 240 þúsund krónur. Geta heimilismenn nýtt sér þjónustu frá Hrafnistuheimilinu en verða að greiða fyrir.

„Þegar ég undirritaði leigusamning á sínum tíma var mér fullljóst að hækkaði vísitalan gæti leiguverðið þróast á þennan veg. Ég get því engum kennt um nema sjálfum mér og er þó ekki með neinar ásakanir heldur,“ segir Hjalti Jónasson, fyrrverandi skólastjóri, sem er einn íbúanna.

Guðmundur Hallvarðsson er formaður Sjómannadagsráðs sem er móðurfélag Naustavarar sem á og rekur þjónustuíbúðirnar við Brúnaveg. Hann viðurkennir að ríflega 200 þúsund króna mánaðarleiga sé íbúum talsverð byrði. „Húsið var byggt þegar aðstæður voru aðrar og leigusamningar taka mið af því. Þess vegna er ljóst að endurskoða þarf umhverfið sem starfað er eftir þótt ég sjái ekki útfærsluna núna,“ segir Guðmundur. Hann segir suma sem í húsinu búa hafa losað um eignir, peninga sem síðan hafi glatast í bankahruninu auk þess sem skattar og álögur hafi almennt aukist. sbs@mbl.is | 8