Guðmundur Bergmann Magnússon fæddist á Dvergasteini á Skagaströnd 24. júlí 1919. Hann lést á Heilbrigðisstofnun A-Hún., Blönduósi sunnudaginn 3. janúar 2010.

Útför Guðmundar fór fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd laugardaginn 9. janúar sl.

Elsku Gummi.

Nú er komið að kveðjustund. Þegar ég hugsa til baka er svo margs að minnast. Það sem er mér efst í huga núna er Gumma-Brúnn og spilið Svarti-Pétur. Þær eru óteljandi ferðirnar sem þú teymdir undir mér á Gumma-Brún að fjárhúsunum og til baka og það var sko ekkert mál ef maður vildi fara aðra ferð. Þolinmæðin sem þú hafðir gagnvart mér var ótrúleg. Svo kenndir þú mér að spila Svarta-Pétur, ég man að þú sast í stólnum þínum inni í sjónvarpsstofu, ég á gólfinu fyrir framan og spilin voru á skammelinu á milli og það var spilað og spilað. Það voru sko margir tímar sem fóru í það að spila og skemmta okkur.

Ég er ánægð með að þér leið vel eftir að þú varst kominn á Sjúkrahúsið á Blönduósi og þú virtist alltaf hafa nóg að gera, hvort sem það var föndrið eða bara að spjalla við hina íbúana. Það situr fast í huga mér hvað þú ljómaðir þegar ég kom til þín síðast. Mér fannst þú svo hress og þú leist svo vel út. En svona geta hlutirnir breyst hratt en ég er þakklát fyrir það að þú skyldir fá að fara svona snöggt.

Elsku Gummi minn, ég kveð þig með þessum orðum:

Blessuð sértu sveitin mín!

sumar, vetur, ár og daga.

Engið, fjöllin, áin þín

– yndislega sveitin mín! –

heilla mig og heim til sín

huga minn úr fjarlægð draga.

Blessuð sértu sveitin mín!

sumar, vetur, ár og daga.

Yndislega ættarjörð,

ástarkveðju heyr þú mína,

þakkarklökkva kveðjugjörð,

kveð ég líf þitt, móðir jörð.

Móðir bæði mild og hörð,

mig þú tak í arma þína.

Yndislega ættarjörð,

ástarkveðju heyr þú mína.

Fagra, dýra móðir mín

minnar vöggu griðastaður

nú er lífsins dagur dvín,

dýra, kæra fóstra mín,

búðu um mig við brjóstin þín.

Bý ég þar um eilífð glaður.

Fagra, dýra móðir mín,

minnar vöggu griðastaður.

Faðir lífsins, faðir minn,

fel ég þér minn anda í hendur.

foldin geymi fjötur sinn.

Faðir lífsins, Drottinn minn,

hjálpi mér í himin þinn

heilagur máttur, veikum sendur.

Faðir lífsins, faðir minn,

fel ég þér minn anda í hendur.

(Sigurður Jónsson.)

Með þökk fyrir allt.

Kveðja,

Anna María.