„ÉG er á leið til Spánar í stutta ferð,“ segir Tinna Karen Gunnarsdóttir, hugbúnaðarsérfræðingur hjá MENINGA.IS, sem fagnar þrítugsafmæli sínu í dag.

„ÉG er á leið til Spánar í stutta ferð,“ segir Tinna Karen Gunnarsdóttir, hugbúnaðarsérfræðingur hjá MENINGA.IS, sem fagnar þrítugsafmæli sínu í dag.

Að sögn Tinnu verður samt ekkert sérstakt afmælistilstand í ferðinni, það bíður febrúarmánaðar. „Þá fagnar mamma stórafmæli og af því tilefni er fjölskyldan að fara til Bretlands að fylgjast með leik Manchester United og Portsmouth á Old Trafford,“ segir Tinna, sem er mikil fótboltaáhugakona og hefur sjálf spilað í um tuttugu ár, fyrst með Val, síðan Fjölni og núna með ÍR-drottningunum.

Að sögn Tinnu er fjölskyldan búin að tryggja sér miða réttu megin á áhorfendapöllunum, þ.e. þeim megin þar sem áhangendur Manchester United sitja þannig að hún geti notið þess að samfagna liðinu.

Spurð um eftirminnileg afmæli í gegnum tíðina segir Tinna engan afmælisdag sérstaklega standa upp úr í minningunni. „Þegar ég hugsa til baka finnst mér alltaf eins og það hafi verið vont veður á afmælisdeginum, yfirleitt brjálaður snjóstormur,“ segir Tinna.

silja@mbl.is