Þegar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir á fundi um skattamál „you ain't seen nothing yet“, um breytingar á skattkerfinu, þá er full ástæða til að taka hótunina alvarlega.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir á fundi um skattamál „you ain't seen nothing yet“, um breytingar á skattkerfinu, þá er full ástæða til að taka hótunina alvarlega. Ekki þarf að rifja upp skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, en hún hefur hækkað nánast alla skatta og gjöld sem til voru, auk þess að finna upp nýja skatta. Ríkisstjórnin hefur á skömmum valdaferli umbylt skattkerfinu og í raun aflagt staðgreiðslukerfi skatta, þannig að þegar fjármálaráðherra talar með þessum hætti hljóta menn að hlusta og velta því fyrir sér hvað kunni að vera framundan.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga aðdraganda þeirra gríðarlegu skattahækkana sem dunið hafa yfir. Síðastliðið vor fóru fram kosningar og fyrir þær var meðal annars mikið rætt um skatta. Núverandi stjórnarflokkar útilokuðu ekki skattahækkanir en þeir gerðu ekki heldur mikið úr áformum sínum á því sviði. Þvert á móti brugðust þeir ókvæða við þegar því var haldið fram að þeir myndu fara út í skattahækkanir.

Sem dæmi birtist auglýsing skömmu fyrir kosningar þar sem því var haldið fram að vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna áformaði að hækka skatta verulega. Framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar brást við með því að segja að í auglýsingunni væri „því ranglega haldið fram að Samfylkingin áformi umtalsverðar og margvíslegar skattahækkanir. Hið rétta er að Samfylkingin hefur ítrekað sagt að vandinn í ríkisfjármálum verði ekki leystur með skattahækkunum heldur verði megináhersla lögð á að mæta halla ríkissjóðs með aðhaldi, niðurskurði og baráttu gegn skattsvikum.“ Einn frambjóðenda Vinstri grænna brást ekki síður illa við auglýsingunni og sagði að „meintar skattahækkanir“ væru „ýktar og uppspunnar“. Frambjóðandinn sagði einnig: „Sannleikurinn er svona: Í samþykktum ályktunum VG um efnahagsmál var talað um að taka upp sanngjarnan eignaskatt. Það voru nú öll herlegheitin. Engar útfærslur. Forysta flokksins hefur á síðari stigum rætt lauslega um að setja á eignaskatt fyrir stóreignafólk sem er líka með háar tekjur.“

Það er í þessu samhengi sem skattgreiðendur hljóta að skoða ummæli fjármálaráðherra og formanns Vinstri grænna um að þær breytingar sem þegar hafi verið gerðar séu ekkert á við það sem í vændum sé.

Um leið hlýtur almenningur að vera farinn að lýjast að sitja undir sífelldum hótunum stjórnvalda um framtíðina. Hótanirnar hafa lengi dunið á fólki vegna afgreiðslu Icesave-málsins, áður var hótunum beitt til að koma umsókn um aðild að Evrópusambandinu í gegnum Alþingi og nú er hótað stórfelldum skattahækkunum. Getur verið að það sé svona sem velferðarstjórn kemur fram við almenning í landinu?