Gaman Hólmfríður og Arnór Flóki sonur hennar leika sér með litla kríu.
Gaman Hólmfríður og Arnór Flóki sonur hennar leika sér með litla kríu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fleiri ferðast um veröldina á hverju ári í fuglaskoðunarferðum en í golfferðum. Vaxandi áhugi er fyrir þessum stærsta villta dýrahópi Íslands.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Áhugi á fuglum, fuglavernd og fuglaljósmyndun hefur vaxið gríðarlega. Félögum í Fuglavernd hefur fjölgað um 25% milli ára undanfarið,“ segir Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar, og bætir við að núna séu félagsmenn tólf hundruð og dreifðir um allt land. „Það er áhugavert að konum hefur fjölgað mjög mikið í félaginu og margir náttúruverndarsinnar eru einnig meðlimir í Fuglavernd. Ætlunin er að félagsmenn verði um eitt prósent landsmanna í náinni framtíð.“

Fuglahúsin reynast vel

Hólmfríður segir fugla vera stærsta villta dýrahóp Íslands og markmið félagsins að verndun fugla verði hagur sem flestra. „Margt af því sem við erum að gera er ætlað til að stuðla að betri vitund um fuglalífið í kringum okkur. Til dæmis garðfuglakönnun sem byggist á því að hvetja fólk til að telja fugla í garðinum hjá sér, hvað þeir eru margir og hverrar tegundar og senda upplýsingarnar til okkar. Þetta er liður í því að vekja áhuga fólks á fuglum, virkja það til að hugsa um og fæða fuglana í harðæri. Við viljum að sem flestir beiti sér fyrir velferð fugla almennt. Við seljum sérstök fuglahús svo fólk geti hænt að sér fugla, gefið þeim að borða, veitt þeim hreiðurstæði og notið þess að hafa fugla í garðinum eða við sumarbústaðinn.“

Fuglaljósmyndun vaxandi

Hólmfríður segir gaman að fylgjast með fuglum og ferðum þeirra. „Fuglar virða engin landamæri og við fáum marga sjaldgæfa fugla hingað sem koma við á leið sinni frá Evrópu til annarra heimsálfa. Við reynum líka að skrá alla flækinga og fólkið í landinu hjálpar okkur við það með því að láta okkur vita þegar það verður vart við einhvern ókunnan fugl. Sumir flækingarnir hreinlega fjúka hingað ef vindáttin er þeim ekki hagstæð.“

Fuglaskoðun er eitt af því sem Fuglavernd vinnur að og félagið stendur reglulega fyrir fuglaskoðunarferðum. „En fólk getur líka farið á eigin vegum og við erum að vinna í því að færa inn á síðuna okkar yfirlit yfir þá staði sem auðvelt er að heimsækja með fuglaskoðun í huga. Fuglaskoðunarskýli eru víða um landið og þá getur fólk verið þar í skjóli fyrir veðri og vindum og án þess að fæla fuglana burt. Oft þarf að bíða mjög lengi eftir ákveðnum fuglum, eða rétta augnablikinu til að smella af mynd,“ segir Hólmfríður og bætir við að eftir tilkomu stafrænna myndavéla hafi fuglaljósmyndurum fjölgað mjög mikið og meðal félagsmanna í Fuglavernd sé fjöldi frábærra ljósmyndara. „Að öðrum ólöstuðum nefni ég Skúla Gunnarsson en hann hefur stundað bæði fuglaskoðun og fuglaljósmyndun í áratugi. Fuglaljósmyndun er ögrandi viðfangsefni og krefst margra eiginleika, til dæmis mikillar þolinmæði. Við héldum ljósmyndasýningu í fyrra og úrval þeirra mynda er á dagatali okkar fyrir árið 2010. Þetta var í fyrsta sinn sem við héldum slíka sýningu og ekki ólíklegt að það verði árlegur viðburður.“

Endurheimt votlendis spornar gegn hlýnun jarðar

Hólmfríður segir marga fuglaskoðara fara til annarra landa í þeim tilgangi að skoða fugla og/eða ná af þeim myndum. „En erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands í þeim tilgangi að skoða og mynda fugla hefur einnig fjölgað mjög. Staðreyndin er sú að það ferðast fleiri um veröldina á hverju ári í fuglaskoðunarferðum en í golfferðum. Þetta segir mikið um það hversu áhugamálið er útbreitt um allan heim.“

Sumar fuglaskoðunarferðir á vegum Fuglaverndar eru í samvinnu við önnur umhverfissamtök, enda er fuglavernd mjög tengd allri náttúruvernd. Endurheimt votlendis er til dæmis mál sem Fuglavernd hefur tekið að sér að berjast fyrir, en það snýst um miklu meira en fuglavernd. Það snýst um allt líf á jörðinni, en endurheimt votlendis spornar gegn hlýnun jarðar og dregur úr losun kolvetnis úr mýrum.

Barist um að fá að sinna fuglatalningu

„Eitt af stóru verkefnunum okkar er Friðland í Flóa sem við sjáum um í samvinnu við sveitarfélagið Árborg. Þar er búið að endurheimta votlendi og tjarnir og þar hefur fuglum fjölgað gríðarlega. Þetta er stórt svæði og þar er fín aðstaða fyrir fuglaskoðara, meðal annars gott skýli. Við verðum með reglulegar fuglaskoðunarferðir þangað í vor og sumar.“

Þó nokkuð er um að fólk frá öðrum löndum hafi samband við Fuglavernd og vilji vinna sjálfboðastarf í hennar þágu. „Við höfum meðal annars fengið fólk frá Veraldarvinum til að starfa við að endurheimta votlendið í Flóanum. En það er líka fjölmargt íslenskt fólk í Fuglavernd sem vinnur mikla og óeigingjarna sjálfboðna vinnu fyrir félagið. Sumt er vinsælla en annað og stundum er nánast slegist um að fá að sinna fuglatalningu á ákveðnum svæðum.“

Fuglavernd

FUGLAVERND er stytting á nafninu Fuglaverndarfélag Íslands en það var stofnað árið 1963. Björn Guðbrandsson læknir stofnaði félagið ásamt öðrum en það var gert fyrst og fremst í kringum örninn en hann var friðaður hér á Íslandi árið 1913. Ísland var fyrsta landið sem friðaði örninn. Fyrstu þrjá áratugina eftir stofnun félagsins snerist starfið að mestu um verndun arnarins, afkomu hans og útbreiðslu.

Í seinni tíð hefur starfið þróast og breyst og Fuglavernd hefur verið með ýmis baráttumál á sinni könnu, meðal annars að endurheimta votlendi en félagið barðist líka gegn virkjun í Þjórsárverum og á hálendi Austurlands, Kárahnjúkum, þar sem miklu fuglalífi var fórnað.

Af einstökum baráttumálum má nefna að Fuglavernd fékk blesgæsina friðaða árið 2006 en hún er kennd við Grænland þar sem hún verpir en hefur viðkomu hér á landi tvisvar á ári.

Einnig vann félagið að tímabundinni friðun rjúpunnar.

Í hverjum mánuði yfir vetrartímann stendur Fuglavernd fyrir fræðslufundum þar sem ýmist koma fuglaskoðarar og segja frá ferðum sínum eða sérfræðingar segja frá ákveðnum fuglategundum, atferli fugla eða fuglarannsóknum.

Fuglavernd gefur út fugladagatöl, tækifæriskort með fuglamyndum og ársritið Fugla (nýjasta heftið kom út í desember 2009), en það er hugsað fyrir allt áhugafólk um fugla.