Jón Ingvar Jónsson veltir fyrir sér dómstólaleiðinni í Icesave-málinu, sem gæti falist í því að Bretar og Hollendingar höfðuðu mál gegn innstæðutryggingasjóði fyrir íslenskum dómstólum.

Jón Ingvar Jónsson veltir fyrir sér dómstólaleiðinni í Icesave-málinu, sem gæti falist í því að Bretar og Hollendingar höfðuðu mál gegn innstæðutryggingasjóði fyrir íslenskum dómstólum. Hann yrkir:

Að aukast muni okkar sæmd

eru talsvert miklar líkur

verði hennar hátign dæmd

í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Konráð Erlendsson bætir við:

Óbilgirni Englendinga

er alveg skýr

og höfðingsskapur Hollendinga

heldur rýr.

Stefán Vilhjálmsson er í öðrum hugleiðingum fyrir norðan:

Bleikur roði bólstrum á,

bjarma skarta fjöllin há,

dagsins boða dýrðir má,

drullusmart er út að sjá!

Nafn séra Hjálmars Jónssonar datt út við birtingu limru um það, er Ólafur G. Einarsson var gerður að heiðursborgara:

Útnefndur ungur til valda,

Ólafi rétt var að tjalda.

Garðabæ hefur

sá heiðraði refur

stjórnað frá örófi alda.

Són, 7. heftir tímaritsins um óðfræði, er komið út. Þar má finna ljóð Hólmfríðar Bjartmarsdóttur um vorið:

Lifandi er skógurinn að laufga sig á ný.

Látlaus streyma skýin yfir tindinn.

Lifandi er vatnið og leikurinn í því

og léttar dansa starirnar við vindinn.