Grímsey Gylfi Gunnarsson segir Grímseyinga mjög óánægða.
Grímsey Gylfi Gunnarsson segir Grímseyinga mjög óánægða. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is VEGAGERÐIN er að athuga hvort hægt sé að fresta fækkun á ferðum Grímseyjarferjunnar Sæfara til haustsins. Ferðum ferjunnar var fækkað um áramótin úr þremur á viku í tvær og átti það að gilda fram á vor.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

VEGAGERÐIN er að athuga hvort hægt sé að fresta fækkun á ferðum Grímseyjarferjunnar Sæfara til haustsins. Ferðum ferjunnar var fækkað um áramótin úr þremur á viku í tvær og átti það að gilda fram á vor. Nú siglir Sæfari á mánudögum og fimmtudögum en sigldi áður á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Kristján L. Möller, samgönguráðherra, kvaðst hafa fengið ábendingu úr Grímsey um að fækkun ferða nú komi illa niður á fiskflutningum.

„Ég fékk beiðni um að skoða hvort ekki væri hægt að fækka ferðum Sæfara frekar að haustinu. Ég setti Vegagerðina strax í málið og bað hana að skoða þetta. Það er nú til skoðunar hvort við getum víxlað þessu,“ sagði Kristján. Hann sagði að ráðuneytinu og stofnunum þess hefði verið gert að skera niður kostnað um 10% og að allra leiða væri leitað til að mæta þeirri kröfu.

„Okkur finnst andstyggilega komið fram við okkur,“ sagði Gylfi Þ. Gunnarsson, útgerðarmaður í Grímsey, um fækkun ferða Sæfara um þriðjung. „Ég er ekki farinn að sjá að nokkrir aðrir hafi þurft að verða fyrir 33% niðurskurði á samgöngum.“

Gylfi sagði mikla óánægju meðal fólks í eynni með þetta. Safnað var undirskriftum í Grímsey til að mótmæla fækkun ferða og skrifaði hvert einasta mannsbarn, sem valdið gat penna, á listann.

Gylfi sagði að fækkun ferða þýddi verulegt tekjutap fyrir sjávarútveginn í Grímsey. Þaðan færi töluvert mikið af fiski á markað. Fiskur sem t.d. kæmist ekki með ferjunni á fimmtudegi yrði nú ekki boðinn upp fyrr en á þriðjudegi.

„Það segir sig sjálft að við hljótum að fá töluvert minna fyrir þennan fisk. Eins höfum við verið að selja fersk hrogn og fleira. Þetta gengur ekki. Þetta er á allan hátt hið versta mál,“ sagði Gylfi.