EITRUNARMIÐSTÖÐ Landspítalans og fleiri stofnanir á heilbrigðissviði hafa vakið athygli á því að hægt er að kaupa á netinu svonefnda „kraftaverkalausn“ eða MMS sem getur valdið alvarlegu líkamstjóni.

EITRUNARMIÐSTÖÐ Landspítalans og fleiri stofnanir á heilbrigðissviði hafa vakið athygli á því að hægt er að kaupa á netinu svonefnda „kraftaverkalausn“ eða MMS sem getur valdið alvarlegu líkamstjóni. Ekki er þó vitað um nein dæmi um slys hér á landi. En bent er á að mikilvægt sé að tilkynna til yfirvalda ef grunur leikur á eitrun af völdum lausnarinnar, segir Guðborg Guðjónsdóttir, yfirmaður Eitrunarmiðstöðvarinnar. Hún er í sambandi við starfssystkin sín víða um heim og fær sendar viðvaranir frá þeim ef talin er hætta á slysum.

„Í Frakklandi kom nýlega upp tilfelli og þeir eru að grennslast fyrir um það hvort eitthvað slíkt hafi gerst í grannlöndunum,“ segir Guðborg. „Einnig kom upp tilfelli í Noregi í október þar sem tveggja ára barn komst í svona flösku og varð veikt og sagt hefur verið frá fleiri eitrunum á ráðstefnum.“ Umrædd „kraftaverkalausn“ er seld undir heitinu Miracle mineral solution eða MMS en einnig stundum Miracle mineral supplement. Í lausninni er 28% natríum klórít (NaClO2) sem ætlað er að lækna ýmsa sjúkdóma.

Guðborg bendir á að ekki er um að ræða natríumklóríð, sem er venjulegt matarsalt. „Natríumklórít er hins vegar mjög öflugt efni, mjög svipað og natríumhypóklórít sem oft er notað til að bleikja. Ætlast er til að fólk þynni MMS en hættan er að það sé ekki rétt gert og svo geta börn auðvitað komist óvart í efnið.“

Í tilkynningu frá sóttvarnalækni, Lyfjastofnun, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Eitrunarmiðstöðinni segir að engin vísindaleg gögn liggi fyrir sem styðji notkun MMS við sjúkdómum. Natríumklórít geti valdið metrauðablæði, skemmdum á rauðum blóðkornum og nýrnabilun.

Efni frá sama fyrirtæki, natríumklórdíoxíð, hefur verið á boðstólum í versluninni Góð heilsa gulli betri í Reykjavík en hefur nú verið tekið úr sölu í bili, að sögn talsmanns verslunarinnar í gær. Skylt er að veita Matvælastofnun upplýsingar um fæðubótarefni sem seld eru hér á landi en stofnunin mun ekki hafa fengið neina tilkynningu um MMS.

„Ólæknandi sjúkdómar“ sagðir læknaðir með efninu

Á heimasíðu MMS er vitnað í umsagnir mexíkóskra lækna sem hrósa efninu. „Kraftaverkalausn 21. aldarinnar“ er fyrirsögnin á einni greininni og er þar fullyrt að hundruðum mannslífa hafi verið bjargað fyrir tilstuðlan lyfsins. Á hverjum degi berist skýrslur um að tekist hafi að lækna „ólæknandi sjúkdóma“ með MMS og seldar séu um 10.000 flöskur á mánuði hverjum. kjon@mbl.is