Þórir Ólafsson
Þórir Ólafsson
ÞÓRIR Ólafsson, landsliðsmaður í handknattleik, meiddist á æfingu íslenska landsliðsins í Vodafonehöllinni um hádegið í gær.

ÞÓRIR Ólafsson, landsliðsmaður í handknattleik, meiddist á æfingu íslenska landsliðsins í Vodafonehöllinni um hádegið í gær. Guðmundur Þórður Guðmundsson staðfesti skömmu eftir æfinguna að meiðslin væru það slæm að útilokað væri að Þórir léki með landsliðinu á Evrópumeistaramótinu sem hefst í Austurríki á þriðjudaginn.

Þórir hefur á undanförnum vikum verið á batavegi eftir meiðsli á vinstri kálfavöðva, en meiðslin tóku sig upp á ný á æfingunni í morgun. „Við höfum alveg farið eftir ráðum lækna okkar og sjúkraþjálfara varðandi Þóri. Hann fékk að hvíla sig í byrjun æfingatímans og síðan var álagið aukið smátt og smátt. Síðan var komið að því að láta reyna á kálfann og eftir um klukkustundaræfingu tóku meiðslin sig upp,“ sagði Guðmundur og bætti við að það væru mikil vonbrigði að geta ekki haft Þóri í EM-hópnum. „Þórir er frábær leikmaður sem leikið hefur vel með landsliðinu eftir að hann kom á ný inn í hópinn haustið 2008. Auk þess er hann frábær félagi sem gott er að hafa í hópi,“ sagði Guðmundur ennfremur. iben@mbl.is