Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur að nú hafi Íslendingar aðeins örfáa daga til að leita á ný samninga við Breta og Hollendinga.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur að nú hafi Íslendingar aðeins örfáa daga til að leita á ný samninga við Breta og Hollendinga. Ráðherrann er örvæntingarfullur og telur að nú hafi ef til vill um örskamma hríð opnast örmjó rifa á örlitlum glugga.

Hefur nokkur heyrt þennan söng áður? Kannast nokkur við að hafa heyrt það áður að við séum alveg að falla á tíma í Icesave-málinu? Að nú blasi hyldýpið við ef við leggjum ekki þegar niður vopn.

Eftir ítrekaða lokafresti allt síðasta ár voru nýliðin áramót hinn mikli lokafrestur. Þess vegna varð þingið að hamast á milli jóla og nýárs og þingforseti ákvað að loka á allar frekari upplýsingar um málið, enda gætu þær frestað því fram yfir frestinn mikla.

Svo liðu áramótin án þess að nokkuð gerðist og sama er að segja um fyrstu daga ársins. Heimsendir lætur enn á sér standa.

Hvernig væri að taka nú góðan tíma og hugsa málið upp á nýtt? Eitt sem mælir til að mynda mjög með því að bíða er að kosningar eru framundan bæði í Bretlandi og Hollandi.

Ástæða er til að ætla að nú, skömmu fyrir kosningar, séu stjórnmálamenn í þessum löndum lítið sveigjanlegir í viðræðum af þessu tagi. Eftir kosningar má ætla að viðhorfið geti verið töluvert breytt og þá muni jafnvel núverandi stjórnvöld hér á landi treysta sér til að útskýra fyrir þeim málstað Íslands.