Leitar svara Gunnar Sigurðsson leikstjóri fer meðal annars til eyjunnar Tortola til að leita svara við íslenska efnahagshruninu.
Leitar svara Gunnar Sigurðsson leikstjóri fer meðal annars til eyjunnar Tortola til að leita svara við íslenska efnahagshruninu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is „ÉG get alveg sagt þér strax að ég tek bullandi afstöðu í þessari mynd, ég er ekki skoðunarlaus.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

„ÉG get alveg sagt þér strax að ég tek bullandi afstöðu í þessari mynd, ég er ekki skoðunarlaus. Ég hef skoðanir á þessum hlutum, mér finnst þetta ekki rétt og fer að leita mér upplýsinga,“ segir Gunnar Sigurðsson leikstjóri um heimildarmynd sína Maybe I Should Have – Frásögn af efnahagsundrinu Íslandi .

Myndin verður frumsýnd 20. janúar næstkomandi í Háskólabíói og fer í almennar sýningar 5. febrúar í Sambíóinu í Kringlunni.

Eins og nafn myndarinnar gefur til kynna fjallar hún um íslenska efnahagshrunið.

„Þetta er úttekt á eftirleik hrunsins, við förum auðvitað aðeins í gegnum hrunið og skoðum af hverju allir þessir hlutir gerðust, en þetta er mjög persónuleg saga.“

Ertu að segja þína sögu?

„Já að mörgu leyti, mína sögu og margra annarra í leiðinni, held ég bara. Ég tala um þetta allt á persónulegum nótum og bendi á það sem mér finnst og á það sem ég trúði á því ég hélt að þetta væri í lagi. Ég komst að því haustið 2008 að þetta er ekki í lagi og hefur ekki verið í lagi í mörg mörg ár,“ svarar Gunnar.

Hófu vinnu í júní 2009

Gunnar hóf að vinna myndina í júní í fyrra eftir að hafa verið virkur á borgarafundum og í mótmælum.

„Ég heimsótti vinkonu mína, Lilju Skaptadóttur, til Frakklands í fyrra og þar fórum við að kjafta um hrunið yfir mat, okkur datt þá í hug að gera svona mynd, eitt leiddi af öðru og við hófum að vinna í handritinu þegar heim kom. Síðan þá höfum við verið að vinna við myndina jafnt og þétt,“ segir Gunnar um tilurð myndarinnar.

Myndin einskorðast ekki við Ísland heldur ferðast þau víða um heim við gerð hennar. „Við förum um allt, frá Íslandi til London, þaðan til Guernsey, Berlínar, Lúxemborgar, Washington og Tortola. Á Tortola ræðum við m.a. við landstjórann og spyrjum hann að því hvernig þetta virkar hjá þeim. Hann segir okkur bara að þeir séu svona eyja sem bjóði upp á þessa þjónustu. Við fengum mikið af upplýsingum þar.

Í Washington lendum við á hagfræðingaráðstefnu og spjöllum við marga hagfræðinga, meðal annars William Black, sem skrifaði bókina The Best Way to Rob a Bank is to Own One . Við komumst að því að hagfræðingarnar vissu allir um Ísland og töluðu um það af mikilli þekkingu og áhuga. Við erum orðin skólabókardæmi um eitthvað sem við viljum ekki endilega vera skólabókardæmi um. Síðan ræðum við við Björgólf Thor Björgólfsson, Evu Joly og Jón Gnarr. Skopmyndir eftir Halldór Baldursson koma svo við sögu og við búum til smá leikrit.

Við tölum bæði við Íslendinga og venjulegt launafólk og ellilífeyrisþega í Guernsey sem töpuðu öllu sínu fé hjá Landsbankanum. Fólk sem lagði peninginn sinn inn í banka, svo var bankanum bara lokað og peningarnir hurfu. Við fórum út um allt og hittum allskonar fólk og skoðuðum margt.“

Kom margt á óvart?

„Það sem kom mér mest á óvart við þennan eltingarleik er hvað maður hefur sjálfur verið blindur í mörg mörg ár fyrir því í hverskonar fjársvikalandi við búum. Maður lokaði augunum fyrir því hvað þetta kunningja- og vinasamfélag háir okkur að mörgu leyti en er auðvitað ofsalega þægilegt að öðru leiti. Í myndinni förum við líka í gegnum spillinguna á Íslandi og hvers vegna og hvað. Þetta er svona vegamynd, við erum bara að leita svara.“

Finnið þið þau?

„Já að sumu leyti, öðru leyti ekki,“ svarar Gunnar leyndardómsfullur.

Er myndin í anda annarrar hrun-myndar; Guð blessi Ísland?

„Nei, þetta er allt allt öðruvísi mynd. Í engri líkingu við Guð blessi Ísland , við erum að segja sögu, setjum hluti í samhengi, þetta er bíómynd.“

Gerð án opinberra styrkja

Gunnar er sjálfur leikstjóri myndarinnar og Herbert Sveinbjörnsson sér um kvikmyndatöku. Lilja Skaptadóttir er framleiðandi og eigandi Argoutfilm sem býr myndina til.

„Myndin er gerð án allra opinberra styrkja, án allra styrkja frá félögum og félagasamtökum. Hún er algjörlega fjármögnuð af einum aðila, Lilju Skaptadóttur. Þetta er ekki dýr mynd þó hún líti út fyrir að vera það. Við höfum unnið okkar vinnu fyrir lág laun og lítil sem engin laun og leitað til vina og vandamanna með ýmis málefni til að leysa úr.“ segir Gunnar.

Stefnið þið að því að selja þessa mynd til erlendra aðila?

„Já fyrstu 25 mínúturnar í myndinni eru bara útskýringar á ástandinu eins og það gerðist. Kynning á því og svo byrjar leitin, við eltum peningana, eitt leiðir af öðru, þetta er bara ferðalag. Við erum bara venjulegt fólk að leita svara.

Við ætlum að fylgja myndinni eftir, koma henni á kvikmyndahátíðir og í sjónvarp í öðrum Evrópulöndum.“

Maybe I Should Have

„Titill myndarinnar, Maybe I Should Have, er ekki eingöngu tilvísun í svar Geirs H. Haarde þegar hann var spurður afhverju hann hefði ekki hringt í Gordon Brown þegar hann setti á okkur hryðjuverkalög. Þá svaraði Geir eins og víðfrægt er orðið: „Maybe I should have“. Þessi tilvitnun er ekki eingöngu vísun í þetta svar Geirs, hún er bara góð fyrir okkur öll,“ segir Gunnar um titil myndar sinnar.