Tvær kynslóðir Gamli Ferguson og afkomandinn, Massey Ferguson, vinna vel saman í heyskapnum. Handaflið er samt alltaf best til að henda litlu sátunum upp á heyvagninn. Þá er betra að vanda sig og skilja ekki eftir dreif.
Tvær kynslóðir Gamli Ferguson og afkomandinn, Massey Ferguson, vinna vel saman í heyskapnum. Handaflið er samt alltaf best til að henda litlu sátunum upp á heyvagninn. Þá er betra að vanda sig og skilja ekki eftir dreif. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aldrei hefði ég trúað því að hægt væri að skrifa svona áhugaverða og skemmtilega bók um eina tiltekna dráttarvélategund. Bókin ...

Aldrei hefði ég trúað því að hægt væri að skrifa svona áhugaverða og skemmtilega bók um eina tiltekna dráttarvélategund. Bókin ...og svo kom Ferguson: Sögur um Ferguson dráttarvélarnar á Íslandi í máli og myndum eftir Bjarna Guðmundsson á Hvanneyri kom út í júlí og varð (óvænt) ein söluhæsta bókin fyrir nýliðin jól.

Í fyrra voru sextíu ár frá því fyrstu Ferguson dráttarvélarnar komu til Íslands og í bókinni segir Bjarni sögu Ferguson frá því Harry Ferguson fæddist og fór að vinna að því að fá hönnun sína framleidda og þar til fyrsti Fergusoninn nam land á Íslandi, síðan er saga hans hérlendis rakin.

Ferguson var langt frá því eina dráttarvélategundin sem var flutt hingað til lands en Ferguson varð sú vinsælasta og sú tegund sem flestir tengja við búháttabreytingarnar í íslenskum sveitum eftir seinni heimstyrjöld. Þessi saga sem Bjarni skráir er mjög merkileg. Vélvæðing sveitanna hófst ekki fyrr en um miðja síðustu öld og hvaða breytingar hún hafði á íslenska búskaparhætti getur enginn gert sér í hugarlund nema sá sem hana upplifði. Því er ....og svo kom Ferguson merkileg fyrir þær sakir að um leið og saga Ferguson er rakin er hin merkilega saga vélvæðingar landbúnaðarins líka rakin og m.a áhrif hennar á matvælaframleiðslu í landinu.

Bókin er mjög læsileg, vel skrifuð og þægilega upp sett. Öll vinna við hana er til mikillar fyrirmyndar og Bjarni hefur verið duglegur við að grafa upp allskonar heimildir um Ferguson, margar hverjar mjög áhugaverðar. Má sem dæmi nefna ritdeilur í Morgunblaðinu árið 1950 sem hófust þegar Sigurður Þórðarson á Laugabóli sendi inn lofgrein um Ferguson, innflytjendum annarra dráttarvélategunda til mikilla ama. Gaman er líka að léttari útúrdúrum eins og t.d hvernig Bjarni hrekur að Ferguson hafi verið dráttarvél framsóknarmanna með því að bera saman áhuga bænda á Ferguson dráttarvélum árið 1949 og fylgi Framsóknarflokksins í Alþingiskosningum sama ár. Bjarni kemst að þeirri niðurstöðu að áhugi bænda á Ferguson hafi helgast af eiginleikum dráttarvélarinnar en ekki stjórnmálaskoðun þeirra.

Myndirnar sem skreyta bókina eru líka mjög skemmtilegar, styðja vel við efnið og eru lýsandi fyrir það. Gaman er líka hversu margar myndir eru af konum að keyra Ferguson, dráttarvélin var augljóslega allra.

Bókin skiptist í tvo hluta, fyrrihlutinn fer í sögu Ferguson en í seinnihlutanum rifja tíu einstaklingar úr öllum landshlutum upp kynni sín af fyrstu Ferguson vélunum. Gefur sá hluti góða innsýn inn í hvaða breytingar urðu á högum fólks með komu dráttarvélarinnar á bæina og jaðrar við að sumar sögurnar séu hálfgerðar ástarsögur, svo mikill er ljóminn yfir komu fyrsta Fergusonsins.

Ég hef ekki gerst svo fræg að fá að keyra Gamla grána eins og fyrstu Ferguson vélarnar voru gjarnan kallaðar. En dráttarvélin sem ég lærði á var afkomandi hans, Massey Ferguson 135. Varð sú tegund til við sameiningu fyrirtækjanna Massey Harris og Ferguson árið 1953. Massinn var ekkert í líkindum við þau tryllitæki sem dráttarvélar eru orðnar í dag en hentaði vel fyrir unglinginn til að stíga sín fyrstu skref í dráttarvélaakstri; einfaldur í notkun og lipur í akstri. Þó ég hafi ekki keyrt gamla Ferguson og geti ekki talist áhugamanneskja um dráttarvélar hafði ég mikið gaman af lestri þessarar bókar og að fræðast um sögu Ferguson hér á landi.

ingveldur@mbl.is

Ingveldur Geirsdóttir