Glaðir í bragði Það er létt yfir Jóhannesi og félögum hans í Múlakaffi, enda mikill annatími framundan.
Glaðir í bragði Það er létt yfir Jóhannesi og félögum hans í Múlakaffi, enda mikill annatími framundan. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is Súran pung og sviðapressu saman étið. Harðfiskinn og hangiketið. Hákarlinn þó best þið metið. Síðan verður dansað dátt og duflað meira. Drekka sumir munu mikið. Margir fara yfir strikið.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Súran pung og sviðapressu

saman étið.

Harðfiskinn og hangiketið.

Hákarlinn þó best þið metið.

Síðan verður dansað dátt og

duflað meira.

Drekka sumir munu mikið.

Margir fara yfir strikið.

ÞANNIG orti Jón Gissurarson í fyrra í tilefni af sameiginlegu þorrablóti fjögurra hreppa sem haldið var á Sauðárkróki. Nú styttist í þorrann en hann hefst á bóndadaginn sem er 23. janúar. Þorrinn var fjórði mánuður ársins samkvæmt gömlu tímatali og margvíslegar hefðir tengjast honum. Þeir eru margir sem skófla þá í sig af mikilli áfergju hnossgæti eins og kæstum hákarli og súrsuðum selshreifum en smakka samt þennan mat aðeins einu sinni á ári.

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort ekki væri hægt að markaðssetja þessa þjóðlegu hefð, leyfa erlendum ferðamönnum að kynnast óvenjulegum mat sem vissulega þefjar undarlega og er ekki allur aðlaðandi á að líta en er – skrítinn. Kannski spennandi? Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra (og bóndi), lagði til í bloggi fyrir sex árum að kannski væri það líklegra til árangurs en að verja ótöldum milljónum í að markaðssetja íslenska lambakjötið erlendis.

„Komin aftur með hvalrengið“

Jóhannes Stefánsson, veitingamaður í Múlakaffi, hefur reynslu af þorraveislum en fyrirtækið hefur staðið fyrir þeim í 46 ár. „Lokaundirbúningurinn er í gangi,“ segir hann. „Nú erum við komin aftur með hvalrengið, það er aftur í trogunum okkar en var ekki í fyrra. Ég vildi það ekki fyrr en ég væri búinn að ná í alvörurengi. Nú fékk ég það hjá Kristjáni Loftssyni í Hval hf.

Mér sýnist að aðsóknin verði jafnvel meiri en í fyrra, þetta fer gríðarlega vel af stað. Þetta eru í kringum 15 tonn af mat, allt rammíslenskt, sviðasultan, hangikjötið, allt þetta dæmi. Þyngst vegur súrmaturinn. Við byrjum alltaf að leggja í súr í byrjun september, byrjum á hrútspungunum, sviðasultunni og lundaböggunum og þetta hefur alltaf tekist vel.“

S&S

Hver er uppruni þorrablóta?

Í heiðni hefur fólk komið saman til að fagna því að veturinn var hálfnaður. Siðurinn varð mikil tíska aftur seint á 19. öld eftir að trúfrelsi var lögtekið 1874. En áhuginn dvínaði smám saman í kaupstöðum.

Hvenær voru þau endurvakin?

Halldór heitinn Gröndal, veitingamaður í Naustinu og síðar prestur, hóf árið 1958 að bjóða upp á hefðbundinn þorramat í trogum. Má segja að eftir það hafi hefðin endanlega fest sig í sessi á ný. Íslendingar gerðu lítið af því að geyma mat í salti. Af hverju?

Útlent salt var dýrt og þjóðin bláfátæk. Hægt var að vinna salt úr sjó en til þess þurfti mikinn eldivið. Þess vegna gerðu menn meira af því að þurrka, reykja, kæsa og súrsa.