[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikmenn portúgalska landsliðsins í handknattleik komu til Íslands á sunnudag eftir að hafa dvalið við æfingar og leiki í Svíþjóð . Þar töpuðu þeir í tvígang fyrir heimamönnum, 36:24, og 32:29.

Leikmenn portúgalska landsliðsins í handknattleik komu til Íslands á sunnudag eftir að hafa dvalið við æfingar og leiki í Svíþjóð . Þar töpuðu þeir í tvígang fyrir heimamönnum, 36:24, og 32:29. Héðan heldur liðið til Lúxemborgar á fimmtudag hvar það leikur um næstu helgi við landslið Lúxemborgar og Lettlands í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Hinn gamalkunnugi markvörður Svía, Mats Olsson , er landsliðsþjálfari Portúgals í handknattleik. Kappinn varð fimmtugur í gær og héldu hann og lærisveinar upp á daginn m.a. með för í Bláa lónið eftir æfingu í hádeginu í gær.

Portúgalir hafa æft tvisvar á dag frá því að þeir komu til landsins. Þeir eru með æfingaaðstöðu í Kórnum í Kópavogi .

Argentínski framherjinn Gonzalo Higuain verður ekki með Real Madrid næstu þrjár til fjórar vikurnar vegna tognunar í kálfa að því er forráðamenn félagsins greindu frá í gær. Þetta er áfall fyrir Madridarliðið enda hefur Higuain verið öflugur á leiktíðinni og hefur skorað 11 mörk fyrir í deildinni og 2 í Meistaradeildinni. Frakkinn Karim Benzema mun væntanlega taka stöðu Argentínumannsins en Benzema sem kom til Real Madrid frá Lyon fyrir tímabilið hefur fá tækifæri fengið með liðinu.

Fótboltamaðurinn Helgi Pétur Magnússon mun ekki leika með ÍA í næst efstu deild á næstu leiktíð. Samningur Helga við ÍA var útrunninn en það er óvíst hvar eða hvort varnarmaðurinn mun spila á næsta tímabili.

Kvennalið Grindavíkur í körfuknattleik fær liðsstyrk á næstu dögum en Joanna Skiba mun leika með liðinu það sem eftir er keppnistímabilsins. Skiba þekkir vel til Grindavíkurliðsins því hún lék með liðinu veturinn 2007-2008 þegar það varð bikarmeistari. Skiba er leikstjórnandi. Hún er með tvöfalt ríkisfang, bandarískt og pólskt. Hún skoraði 18 stig að meðaltali og gaf um 6 stoðsendingar í leik þegar hún lék síðast með Grindavík. Liðið er í öðru sæti deildarinnar og til alls líklegt í framhaldinu.