Vefur settur upp „Verkið er flókið í uppsetningu,“ segir Ingunn Fjóla. 6.000 göt voru boruð.
Vefur settur upp „Verkið er flókið í uppsetningu,“ segir Ingunn Fjóla. 6.000 göt voru boruð. — Morgunblaðið/RAX
MYNDLISTARMENN hafa síðustu áratugi unnið mikið með innsetningar, en fyrir mér er þetta fagurfræðileg upplifun sem er gömul hugsun. Að listin eigi að vera hvíld frá hversdagsleikanum,“ sagði Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir myndlistarmaður í gær.

MYNDLISTARMENN hafa síðustu áratugi unnið mikið með innsetningar, en fyrir mér er þetta fagurfræðileg upplifun sem er gömul hugsun. Að listin eigi að vera hvíld frá hversdagsleikanum,“ sagði Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir myndlistarmaður í gær. Hún var þá önnum kafin við að strengja garn og girni í viðamikið myndlistarverk sitt, Ljósbrot , í Sverrissal Hafnarborgar en sýning á því verður opnuð á laugardaginn.

„Í þessu verki er verið að skynja og skoða. Þetta snýst um upplifun hvers og eins,“ segir hún.

Þegar Ingunn Fjóla er beðin um að lýsa verki sínu segir hún það vera einskonar völundarhús úr girni og garni. „Þetta eru tíu veggir sem mætast, tveir og tveir, og mynda leið gegnum rýmið. Girnið og garnið eru þrædd lárétt á álstaura sem ná alveg upp í loft. Efnin eru í mismunandi litum þannig að þegar gengið er um rýmið þá blandast litirnir.

Garnið sést vel og hefur nærveru en girnið er nánast gegnsætt; það verður skynbrenglun og áreiti á augað.“

Ferðalag um völundarhús

Ingunn Fjóla lauk námi við Listaháskóla Íslands árið 2007 en hafði áður numið málaralist og listasögu í Árósum. Hún hefur áður skapað skynvilluheima í myndverkum sínum.

„Ég gerði svipað verk í Þýskalandi fyrir nokkrum árum, úr girni og garni, en rýmið var allt öðruvísi. Þetta verk er stílhreinna að öllu leyti. Ég hef líka gert rýmisverk með málverkum á uppreistum spónarplötum; lokaverkið mitt úr Listaháskólanum var völundarhúsarmálverk sem gengið var inní.“

Völundarhúsið heillar því sýnilega.

„Já, völundarhús eru oft geómetrísk og leiðin afmörkuð. Það finnst mér áhugavert. Þá hefur völundarhús táknræna merkingu: ferðalag að einhverju sem leitað er að í lífinu. Ég er ekki endilega að vinna með það heldur einfaldlega að búa til leið.“

Verkið er flókið í uppsetningu.

„Það eru um 1.000-1.200 metrar af efni í hverjum vegg og þeir eru tíu, þannig að þetta eru á milli 10 og 12.000 metrar af girni og garni. Búið er að bora 6000 göt í prófílana og setja í þau 6.000 nagla.

Verkið er unnið sérstaklega inn í þetta rými, miðað við hlutföllin í salnum, þannig að það fer aldrei upp nákvæmlega eins annarsstaðar.

Ég er að vinna með upplifun hér og nú. Þetta er ekki varanlegt verk sem hægt er að taka með sér og hengja upp fyrir ofan sófa.“