Á meðan frost og fannfergi ríkir víðast hvar í Evrópu og samgöngur hafa víða verið erfiðar og legið niðri hafa hlýindi verið á Íslandi. Nú er reyndar að hlýna á meginlandi Evrópu.

Á meðan frost og fannfergi ríkir víðast hvar í Evrópu og samgöngur hafa víða verið erfiðar og legið niðri hafa hlýindi verið á Íslandi. Nú er reyndar að hlýna á meginlandi Evrópu. Þótt enn sé frost í norðurhluta álfunnar, nálgast kvikasilfrið nú núllið, en fyrir nokkrum dögum munaði tugum gráða á Íslandi og norðurhluta meginlandsins.

Víkverji ók um helgina norður á Sauðárkrók og til baka og voru vegir auðir alla leiðina og hvergi hálkublett að finna. Þetta átti bæði við á Holtavörðuheiði og Þverárfjalli. Það var helst þegar komið var inn á Sauðárkrók að eitthvað var að færð, klakabunkar á götum og hálka. Hitamælir á staðnum sýndi hins vegar níu gráður á selsíuskvarða á laugardag og hlýtur það að teljast nær sumarveðri en vetrarveðri, sem er harla óvenjulegt í byrjun janúar.

Víkverja brá í brún þegar hann fór út í garð á sunnudag til að tína saman leifar stórskotahríðar áramótanna og þrettándans og sá að laukar voru farnir að gægjast upp úr moldinni. Á Íslandi eru hlýindin sem sé slík á þessum árstíma að gróður lætur blekkjast og vaknar af dvala.

Um leið og kólnar á byggðu bóli umfram það sem fólk á að venjast hefjast umræður um það hvort fullyrðingar um hlýnun jarðar séu ekki úr lausu lofti gripnar. Í þessum efnum þarf hins vegar að líta á jörðina alla. Evrópa og Norður-Ameríka eru ekki allur heimurinn. Víkverji lagðist í fremur óvísindalegt netráf þegar hann var að velta þessu fyrir sér og sá ekki betur en óvenju hlýtt hlyti að nú vera í Síberíu, í það minnsta var ekki nema um 20 stiga frost í Omsk í gær, en þar er getur frostið hæglega farið niður í 70 gráður á þessum árstíma. Þaðan berast hins vegar engar fréttir af veðurfari, sennilega vegna þess að fremur er fámennt á þeim slóðum og líf þeirra fáu, sem þar búa, umturnast ekki vegna duttlunga í veðri.