Góður Kylfingurinn Haraldur Franklín Magnús sigraði á alþjóðlegri mótaröð í golfi fyrir kylfinga 19 ára og yngri.
Góður Kylfingurinn Haraldur Franklín Magnús sigraði á alþjóðlegri mótaröð í golfi fyrir kylfinga 19 ára og yngri. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég prófaði golf á golfvellinum við Langaholt á Snæfellsnesi þegar ég var 12 ára í heimsókn í sumarbústaðnum hjá afa mínum. Ég heillaðist strax af íþróttinni.

„Ég prófaði golf á golfvellinum við Langaholt á Snæfellsnesi þegar ég var 12 ára í heimsókn í sumarbústaðnum hjá afa mínum. Ég heillaðist strax af íþróttinni. Tveimur árum síðar var ég farinn að æfa og ég hætti í fótboltanum hjá KR þegar ég var fimmtán ára. Ég fann að þetta var eitthvað fyrir mig og ég hef verið í Golfklúbbi Reykjavíkur frá þeim tíma,“ segir Haraldur Franklín Magnús, 18 ára nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík, en hann sigraði í samanlögðum árangri á alþjóðlegri mótaröð fyrir kylfinga 19 ára og yngri. Lokamótið fór fram í Flórída í lok desember.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

HARALDUR Franklín Magnús býr í Vesturbænum og það var því töluvert fyrirtæki fyrir hann að komast á æfingar á Grafarholts- eða Korpúlfsstaðavelli. „Foreldrarnir voru duglegir að skutla mér og þetta gekk bara vel. Þau spila reyndar ekki golf sjálf og ég kem því ekki úr „golffjölskyldu“.“

Haraldur stundar nám við Menntaskólann í Reykjavík og stefnir á að komast í háskóla í Bandaríkjunum samhliða því að leika og æfa golf.

Stefnan sett á Bandaríkin

„Ég stefni á að komast í háskóla í Bandaríkjunum og vonandi tekst það. Árangurinn á Junior Masters verður vonandi til þess að auka möguleika mína á að komast að.“

Mótaröðin sem Haraldur tók þátt í var leikin í þremur löndum. Eitt mótið fór fram á Strandarvelli á Hellu og þar sigraði Haraldur þar sem hann lék á tveimur höggum undir pari samtals. Næsta mót fór fram í Þýskalandi og þar endaði Haraldur í þriðja sæti. Á lokamótinu í Bandaríkjunum endaði hann í 17.-20. sæti. Samtals fékk hann 1.400 stig og það dugði til sigurs.

„Það var ProGolf-fyrirtækið sem kom okkur inn á þessa mótaröð árið 2008. Ég vann mér síðan keppnisrétt á mótaröðinni 2009 og ég stefni á að verja titilinn á þessu ári. Mótin verða þrjú eins og í ár, og við þurfum bara að koma okkur á staðinn þegar keppt er. Allur annar kostnaður er greiddur af mótshöldurum. Þeir sem eru með þessa mótaröð ætla að stækka hana árið 2011 og þá verður keppt jafnvel 10 sinnum. Og þar á meðal í Suður-Afríku,“ sagði Haraldur.

Með +0,5 í forgjöf

Á þeim rúmu fjórum árum sem Haraldur hefur stundað golfæfingar hefur forgjöfin hrapað niður. „Ég byrjað með 32 og fór niður í 24 í forgjöf á fyrsta árinu. Framhaldið man ég ekki. Ég er með +0,5 í forgjöf núna og það eru tvö ár síðan ég náði meistaraflokksforgjöf.“

Þarf að bæta púttin

Þegar Haraldur var inntur eftir styrkleikum sínum og veikleikum á golfvellinum svaraði hann því til að hann þyrfti að ná betri tökum á púttunum. „Mér finnst ég eiga mikið inni í púttunum. Þar þarf ég að bæta mig. Ég er ekki sá högglengsti í golfinu en það gengur ágætlega með upphafshöggin og stutta spilið er í framför. Upphafshöggin geta flogið 250 metra hjá mér og það er alveg nóg fyrir mig.“

Kylfingurinn ungi var á leið á æfingu þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. „Við æfum þrisvar til fjórum sinnum í viku yfir vetrartímann. Maður þarf að hafa gott ímyndunarafl og góða einbeitingu þegar við erum að lemja bolta í Básum í kuldanum og myrkrinu. Ég æfi einnig í líkamsræktarstöð á Nordica hótelinu og það nýtist mér vel,“ sagði Haraldur Franklín Magnús, afrekskylfingur úr GR.