Lok, lok og læs Ágústa E. Björnsdóttir tekur hér Stellu Sigurðardóttur föstum tökum og varnar henni leið að markinu.
Lok, lok og læs Ágústa E. Björnsdóttir tekur hér Stellu Sigurðardóttur föstum tökum og varnar henni leið að markinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur náði í gærkvöld þriggja stiga forskoti á toppi N1-deildar kvenna í handknattleik eftir sigur á Fram, 25:22, í uppgjöri efstu liðanna sem áttust við í Fram-húsinu.

Valur náði í gærkvöld þriggja stiga forskoti á toppi N1-deildar kvenna í handknattleik eftir sigur á Fram, 25:22, í uppgjöri efstu liðanna sem áttust við í Fram-húsinu. Valur var skrefinu á undan nær allan tímann í leik töluverðra mistaka en hann snerist upp í einvígi markvarðanna sem stóðu svo sannarlega vaktina vel. Berglind Íris Hansdóttir markvörður Vals hafði þar betur en hún varði 24 skot á móti 20 skotum hjá Írisi B. Símonardóttur.

Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is

,,Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur,“ sagði Stefán Arnarsson, þjálfari Vals, við Morgunblaðið eftir sigurinn í Safamýri en Valsliðið undir stjórn Stefáns hefur ekki tapað leik í deildinni í fyrstu 13 leikjum sínum. ,,Bæði lið spila mjög hraðan leik og þegar efstu liðin spila saman er mikil spenna undir og meira um mistök en venjulega. Þessir leikir snúast yfirleitt bara um karakter og baráttu og við höfðum betur,“ sagði Stefán. Spurður út í sigurviljann sem hann hefur náð að koma inn hjá sínu liði sagði Stefán; ,,Við höfum náð miklum sigurvilja í liðið í vetur. Því fleiri leiki sem þú vinnur því meira sjálfstraust kemur. Trúin er virkilega til staðar hjá okkur. Stelpurnar eru í hörkuformi og það getur enginn spilað þessa vörn sem við spilum í lélegu formi. Við erum í góðri stöðu en mótið er rétt hálfnað og það er ekkert í höfn ennþá,“ sagði Stefán.

Það var mikið um óðagot í fyrri hálfleik og mistökin mýmörg í sóknarleik beggja liða. Staðan eftir átta mínútna leik var, 1:1, og Fram náði ekki að skora nema eitt mark á fyrstu 12 mínútum leiksins en hver sóknin á fætur öðrum fór í vaskinn hjá Safamýrarliðinu framan af leik og Valsliðið gerði sig líka sekt um fullt af mistökum. Markverðirnir Berglind Íris og Íris Björk voru í góðum gír á milli stanganna en sem fyrr tefldi Valur fram afar framliggjandi vörn sem leikmönnum Fram gekk illa að finna svör við fyrri hluta leiksins.

Valur náði fjögurra marka forskoti í byrjun seinni hálfleiks og Hlíðarendaliðið var skrefinu á undan Frömurum nánast allan tímann. Karen Knútsdóttir, leikstjórnandi Fram, sem hafði hægt um sig í fyrri hálfleik tók til sinna ráða í þeim síðari og með hana í broddi fylkingar náði Fram nokkrum sinnum að sauma að toppliðinu en Berglind Íris sá til þess að Valur hélt fengnum hlut.

Áttum ekki skilið að vinna

,,Þú átt ekki skilið að vinna leik þegar þú spilar svona eins og við gerðum. Það vantaði alla hreyfingu án bolta og trekk í trekk skutum við niðri á Berglindi þegar hún var sest niður í stað þess að skjóta uppi. Þrátt fyrir öll þessi mistök sem við gerðum vorum við allan tímann inni í leiknum en þegar lykilmenn eins og Stella og Pavla ná sér ekki á strik og Karen aðeins í seinni hálfleik er erfitt að vinna gott lið eins og Valur er með,“ sagði Guðríður Guðjónsdóttir aðstoðarþjálfari Fram, við Morgunblaðið.

Íris Björk var langbesti leikmaður Fram en hún varði á köflum meistaralega vel. Karen Knútsdóttir átti fínan seinni hálfleik og Ásta Birna Gunnarsdóttir stóð fyrir sínu.

Berglind Íris átti enn einn stórleikinn með Val og undirstrikaði að hún er langbesti markvörður landsins og þó víðar væri leitað. Af útileikmönnum var reynsluboltinn Ágústa Edda best, Hrafnildur Skúladóttir átti góða spretti í seinni hálfleik Anna Úrsúla var drjúg í vörn sem sókn.

Fram – Valur 22:25

Íþróttahús Fram, Íslandsmótið í handknattleik, úrvalsdeild kvenna, N1 deildin, þriðjudaginn 12. janúar 2009.

Gangur leiksins : 1:0, 3:2, 3:6, 6:6, 9:10, 10:12 , 10:14, 16:18, 21:23, 22:25 .

Mörk Fram : Karen Knútsdóttir 6/1, Stella Sigurðardóttir 6/5, Ásta Birna Gunnarsdóttir 3, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 3, Pavla Nevarilova 2, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Marthe Sördal 1.

Varin skot : Íris Björk Símonardóttir 20/1, (þar af 1 til mótherja).

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk Vals : Hrafnildur Ósk Skúladóttir 5, Ágústa Edda Björnsdóttir 5, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Kristín Guðmundsdóttir 3, Rebekka Skúladóttir 2, Katrín Andrésdóttir 2, Karólína Gunnarsdóttir 2, Arndís María Erlingsdóttir 1, Nína K. Björnsdóttir 1/1.

Varin skot : Berglind Íris Hansdóttir 24/2 (þar af 5 til mótherja).

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Svavar Pétursson og Arnar Sigurjónsson. Stóðu sig vel.

Áhorfendur : Um 400.

*Björgvin Gústavsson markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik var á meðal áhorfenda og sást ungviðið hópast í kringum hann og taka myndir af honum.