Vargar Aðkoman að Grensáskirkju var ljót á nýársdag.
Vargar Aðkoman að Grensáskirkju var ljót á nýársdag. — Morgunblaðið/Ómar
UMRÆÐA fer nú vaxandi í mörgum sóknarnefndum í Reykjavík um hvort nauðsynlegt sé orðið að setja upp öryggismyndavélar við kirkjur.

UMRÆÐA fer nú vaxandi í mörgum sóknarnefndum í Reykjavík um hvort nauðsynlegt sé orðið að setja upp öryggismyndavélar við kirkjur. Nú þegar hefur Digraneskirkja sett upp slíkan eftirlitsbúnað eftir að rúður voru brotnar þar á síðasta ári og skemmst er að minnast skemmdarverka á Grensáskirkju á gamlársdag þar sem rúður voru brotnar og rauðri málningu slett.

Auk skemmdarverka hefur borið á því að í kringum stórhátíðir, þegar kirkjugestum fjölgar mjög, laumist þjófar í anddyrin og steli úr vösum yfirhafna.

Skemmdarverk tilgangslaus og þróunin sorgleg

Að sögn Ólafs Jóhannssonar, prests í Grensáskirkju og formanns prestafélagsins, velta því nú ýmsir fyrir sér hvort tímabært sé orðið að vakta kirkjurnar. „Fáeinir prestar hafa nefnt það við mig að þeir séu að hugsa um að gera þetta, en þetta er náttúrlega fokdýrt.“

Ólafur segir málið auk þess viðkvæmt, fólk komi til kirkju í ýmsum erindagjörðum og tilhugsunin um samfélag undir vökulu auga eftirlitsmyndavéla þyki fæstum heillandi. „En auðvitað vill maður að kirkjurnar séu látnar í friði og almennt má segja að þessi skemmdarverk séu sorgleg þróun. Munurinn á skemmdarverki og þjófnaði til dæmis er að með þjófnaði er fólk að reyna að komast yfir einhver verðmæti sem það getur mögulega selt, en með skemmdarverki græðir enginn og það er svo tilgangslaust.“ una@mbl.is