Þórdís Elva Þorvaldsdóttir
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir
Eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur: "Í Hæstarétti Íslands eru níu dómarar, skipaðir til æviloka. Þar á meðal er Jón Steinar Gunnlaugsson."

Í HÆSTARÉTTI Íslands eru níu dómarar, skipaðir til æviloka. Þar á meðal er Jón Steinar Gunnlaugsson. Jón Steinar braut blað í sögunni þegar hann svaraði gagnrýni opinberlega, fyrstur hæstaréttardómara, á afstöðu sína í dómsmáli. Hér var um að ræða sératkvæði sem hann skilaði inn í hæstaréttarmáli nr. 148/2005 (en andstætt hinum dómurunum í málinu vildi Jón Steinar sýkna ákærða). Málið var höfðað að frumkvæði stúlku nokkurrar sem kærði fyrrverandi sambýlismann móður sinnar fyrir kynferðisofbeldi gegn sér. Forstöðumaður Barnahúss, Vigdís Erlendsdóttir, tók viðtöl við stúlkuna. Fram kom að Vigdís teldi allt benda til þess að stúlkan hefði verið misnotuð frá unga aldri. Jón Steinar hafði m.a. þetta um málið að segja í grein sem birtist í tímaritinu Lögréttu í júlí 2008: „Svona greinargerð skiptir að mínum dómi yfirleitt ekki máli fyrir sönnunarfærsluna, enda kemur sú frásögn brotaþola, sem greinargerð byggist á, venjulega fram í því sem brotaþolinn ber sjálfur fyrir dóminum.“

Með þessum orðum hefur Jón Steinar lýst því opinberlega yfir að hann taki yfirleitt lítið sem ekkert mark á álitsgerðum sálfræðinga, enda endursegja þeir bara það sem brotaþoli segir sjálfur fyrir dómi að hans mati. Ekki ber á öðru en að áralangt nám og sérmenntun sálfræðinga sé að engu höfð. Staðreyndin er samt sem áður sú að sálfræðingar sem koma fyrir rétt eru ekkert síður þjálfaðir í að greina ummerki um andlega áverka en augnlæknar eru sérþjálfaðir í að greina gláku. Ef sálfræðingum og geðlæknum er ekki treystandi til að meta andlegt ástand fólks á faglegan hátt, hverjum er þá treystandi til þess?

Ég gaf nýlega út bókina Á mannamáli, sem fjallar um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Þar velti ég ofangreindum spurningum fyrir mér. Ég er ekki ein um að hafa sett spurningarmerki við afstöðu Jóns Steinars. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur komst svo að orði í pistli í ágúst 2008:

„Enn er Jón Steinar að berjast fyrir því að í dómum sé litið framhjá hvers kyns vitnisburði um sálrænt áfall eftir kynferðisofbeldi. Hann lætur eins og hann trúi ekki á fyrirbærið.“

Áfallastreituröskun, ein alvarlegasta andlega afleiðing áfalls, er fyrirbæri sem Jón Steinar gefur lítið fyrir. Í áðurnefndri grein sinni hafði hann eftirfarandi um áfallastreituröskun að segja: „Menn verða að sætta sig við að afbrot sem engin vitni eru að verða yfirleitt ekki sönnuð með því að láta kunnáttumenn fara inn í heilabú fórnarlambs eða sakbornings og kanna sannleiksgildi frásagna þeirra. Réttmæt þrá eftir því að afbrotamenn sleppi ekki við refsingu má ekki valda því að búnar séu til aðferðir af þessu tagi við sönnunarfærslu.“

Hér er vert að minnast þess að áfallastreituröskun er ekki tól sem var sérstaklega fundið upp til að auðvelda sönnun í kynferðisbrotamálum, og er síður en svo einungis tengd þeim brotaflokki. Fræðiheitið var sett fram við greiningu á þeim geðrænu vandamálum sem bandarískir hermenn glímdu við í kjölfar Víetnamstríðsins á áttunda áratug síðustu aldar. Margir þeirra sem sneru aftur úr stríðinu áttu í svefn- og einbeitingarörðugleikum, glímdu við þunglyndi, doða og áleitnar minningar um atvik sem þeir höfðu orðið vitni að eða tekið þátt í. Ástandið leiddi suma að lokum til sjálfsvígs. Árið 2005 sviptu 17 fyrrverandi hermenn sig lífi á hverjum degi í Bandaríkjunum, eða um 120 á viku.

Jón Steinar sagði jafnframt um áfallastreituröskun að það væri „sjaldgæft eða jafnvel óþekkt að ákæruvald reyni sönnunarfærslu af þessu tagi í öðrum flokkum afbrota, jafnvel þó að þar kunni að vera skortur á raunverulegum sönnunargögnum um afbrot sem ákært er fyrir“.

Leit á vefsíðu héraðsdómstóla landsins leiddi í ljós að kærandi bæri merki um eða þjáðist af áfallastreituröskun í:

a) líkamsárásarmálum (S-1978/2007, S-1010/2007, S-534/2007, S-396/2006)

b) broti gegn valdstjórninni (S-395/2007)

og síðast en ekki síst

c) í líkamsárásarmáli (nr. 381/2007)

í Hæstarétti, en í því dæmdi Jón Steinar sjálfur.

Lítið hefur verið fjallað um áðurnefndar yfirlýsingar, þrátt fyrir að hér sé á ferðinni einn af æðstu handhöfum dómsvalds á Íslandi. Þykir það ekki sæta tíðindum þegar manneskja í slíkri stöðu grefur undan heilli starfsstétt? Ef ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins lýsti því yfir að ekki væri mark takandi á álitsgerðum líffræðinga, myndi það vekja meiri athygli?

Afstaða Jóns Steinars gengur þvert gegn vitundarvakningu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum um sálrænt tjón. Sú vitundarvakning endurspeglast m.a. í ráðleggingu formanns Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra yfirvalda árið 2005 um að styðjast við álit sálfræðinga í nauðgunarmálum. Eftir stendur spurningin: Ber að taka mark á mati sálfræðinga á andlegum áverkum fyrir íslenskum dómstólum? Ef svarið er já, hvaða þýðingu hefur yfirlýst andstaða hæstaréttardómarans Jóns Steinars Gunnlaugssonar við því?

Höfundur skrifaði bókina Ofbeldi á Íslandi: Á mannamáli.

Höf.: Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur