Vegrið Í Svínahrauni eru akreinar aðskildar með vegriði. Ljóst þykir að það hafi komið í veg fyrir slys þótt bílar hafi skemmst við að aka á vegriðið.
Vegrið Í Svínahrauni eru akreinar aðskildar með vegriði. Ljóst þykir að það hafi komið í veg fyrir slys þótt bílar hafi skemmst við að aka á vegriðið. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vegagerðin er að skoða möguleika á að setja víðar vegrið á milli akbrauta 2+2-vega en þau eru nú. FÍB hefur skorað á stjórnvöld að setja upp slík vegrið. Það kostar um 500 milljónir króna.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

Vegagerðin er að ræða möguleika á uppsetningu vegriða milli akbrauta á 2+2-vegum víðar en nú er. Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar, sagði að í gildandi veghönnunarreglum væri almennt ekki, frekar en í mörgum öðrum löndum, gert ráð fyrir vegriði milli akstursstefna þegar 13 metra bil er á milli akbrauta. Þegar umferðarþungi á slíkum vegum nær 20 þúsund bílum á dag á samkvæmt reglunum að skoða hvort þörf sé á vegriði. Hver kílómetri af vegriði kostar yfir 10 milljónir króna.

Vegagerðin byrjaði í fyrra að setja vegrið milli akstursstefna á Kringlumýrarbraut. Komið er vegrið frá Bústaðabrú og langleiðina að Kópavogslæk.

„Við erum að fikra okkur suðureftir og byrjuðum þar sem umferðin er mest,“ sagði Auður. Á Hafnarfjarðarvegi, norðan Arnarneshæðar, er umferðarþungi nú um 42.000 bílar á dag. Auður benti á að vegurinn hefði verið hannaður fyrir meira en 20 árum þegar aðrar reglur giltu og umferðin var minni. Hún taldi að í ljósi umferðarþunga ætti tvímælalaust að vera þar vegrið milli akbrauta.

Vegagerðin vinnur eftir áætlun stjórnvalda um umferðaröryggi. Auður sagði að í fyrra hefði 210 milljónum verið varið til að auka umferðaröryggi á 60 stöðum í þjóðvegakerfinu en það er samtals um 13.000 km. Slysastaðir voru lagfærðir og unnar fyrirbyggjandi aðgerðir á borð við grjóthreinsun vegkanta og lengingu vegriða við brýr.

Auður sagði það vera mat lögreglunnar að víravegriðið sem sett var milli akbrauta í Svínahrauni hefði komið í veg fyrir alvarleg slys. Hún benti á að einnig þyrfti að huga að umferðarþungum 1+1-vegum, t.d. Vesturlandsvegi á Kjalarnesi og þeim kafla Reykjanesbrautar suður frá Hafnarfirði sem eftir er að tvöfalda.

FÍB skorar á stjórnvöld

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hefur skorað á stjórnvöld að setja upp vegrið á samtals 47,2 km köflum tvöfaldra vega sem eru án vegriðs. Kostnaður við það myndi nema um 500 milljónum króna.

Ólafur Kr. Guðmundsson, varaformaður FÍB, sagði að setja þyrfti vegrið milli akreina 2+2-vega því þar væri leyfður meira en 70 km hraði. Hann nefndi t.d. Reykjanesbraut, Hafnarfjarðarveg, Vesturlandsveg að Mosfellsbæ, Kringlumýrarbraut, Miklubraut og kafla í Ártúnsbrekku.

Ólafur sagði mörg dæmi um að bílar á 2+2-vegum hefðu farið yfir á öfugan vegarhelming. Sem kunnugt er varð nýlega hörmulegt umferðarslys á Hafnarfjarðarvegi þegar bíll fór á milli akbrauta og ók á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Þrír menn létu lífið.

Ólafur sagði að frá því að víravegrið var sett á milli akreina í Svínahrauni fyrir rúmum þremur árum hefði verið keyrt á það um 65 sinnum. Þar af væri vitað að í a.m.k. sex tilvikum hefði verið hætta á að bíllinn sem ók á vegriðið lenti framan á bíl sem kom úr gagnstæðri átt en vegriðið kom í veg fyrir það.

Fækkum slysum

„Ég fagna því sem FÍB og aðrir eru gera í þágu umferðaröryggis,“ sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra um það markmið FÍB að útrýma banaslysum í umferðinni með svonefndri núllsýn.

„Auðvitað er það markmið okkar allra að ekkert banaslys verði í umferðinni,“ sagði Kristján og minnti á að hvorki hefði orðið banaslys á sjó eða í lofti á árinu 2008.

Kristján sagði að í fyrra hefði alls 367 milljónum kr. verið varið til umferðaröryggisáætlunar. Hann sagði að umferðaröryggismálum yrðu gerð góð skil í nýrri samgönguáætlun sem leggja á fram í febrúar n.k..

„Við ætlum okkur að gera meira í umferðaröryggismálum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, á næstunni,“ sagði Kristján. „Það er okkar hjartans mál að fækka slysum. Þá er mikill þjóðhagslegur sparnaður fólginn í því að fækka slysum að ekki sé talað um sársaukann sem slysunum fylgir. Allt sem gert er til að fækka slysum kemur margfalt til baka.“