Metnaður Óli Ofur
Metnaður Óli Ofur
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is LAUGARDAGINN 16. janúar n.k. mun plötusnúðurinn Óli Ofur koma fram á Nasa og spilar þar í c.a. 6 tíma - einn og óstuddur.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

LAUGARDAGINN 16. janúar n.k. mun plötusnúðurinn Óli Ofur koma fram á Nasa og spilar þar í c.a. 6 tíma - einn og óstuddur. Stóreflis veggspjöld hanga nú uppi um stræti og torg og auðséð að Óli er að leggja í þetta ævintýri af miklum heilindum og metnaði. En hví?

„Þetta var spurning um að hrökkva eða stökkva,“ segir plötusnúðurinn. „Ég stend og fell með þessu giggi en ég er að láta gamlan draum rætast með þessu. Ég legg allt í þetta.“

Hingað koma reglubundið erlendir plötusnúðar, sem eru iðulega lítt þekktir, hjá almenningi alltént, en þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur er settur í öndvegi.

„Íslendingar hafa auðvitað haldið uppi heilum kvöldum hér áður en þá eru það margir plötusnúðar sem ná stundum að spila í c.a. hálftíma. Þú nærð ekki að gera neitt á þeim tíma; það þarf lengri tíma til að byggja upp stemningu, flæði o.s.frv., að stilla upp því sem þú getur og kannt. Ég mun því byggja upp allt kvöldið sjálfur frá a - ö.“

Óli segir að ofurdásömun á plötusnúðum erlendist frá hafi á vissan hátt þreytt senuna.

„Stundum er ekki innistæða fyrir því, þó margir séu þeir vissulega góðir.“

Óli segir að þrátt fyrir að leggja mikið í að markaðssetja þetta kvöld verður kostnaður í lágmarki, aðeins mun kosta þúsund krónur inn og greitt er við innganginn.

„Ég hef hitað upp fyrir heilan helling af plötusnúðum en þetta er í fyrsta sinn sem ég er miðpunkturinn á svona stóru giggi Ég mun ekki græða neitt á þessu kvöldi. Þetta er hugsjón, gamall draumur eins og ég sagði áður. Í mínum huga er þetta mikilvægasta og metnaðarfyllsta partí sem ég hef sett upp til þessa og ekkert myndi gleðja mig meira en að geta spilað danstónlist í hæsta gæðaflokki fyrir fullu húsi fram á rauða nótt.“

Sjá nánar á www.ofur.is