Farflug Gulu línurnar sýna leiðir kríunnar suður á bóginn með viðkomu á Atlantshafi (lítill hringur). Hvíta línan sýnir leið kríunnar norður á bóginn.
Farflug Gulu línurnar sýna leiðir kríunnar suður á bóginn með viðkomu á Atlantshafi (lítill hringur). Hvíta línan sýnir leið kríunnar norður á bóginn.
KRÍAN flýgur meira en 70.000 kílómetra á árlegu farflugi sínu á milli pólanna og sumar þeirra fljúga sem samsvarar þremur ferðum til tunglsins og til baka á ævinni.

KRÍAN flýgur meira en 70.000 kílómetra á árlegu farflugi sínu á milli pólanna og sumar þeirra fljúga sem samsvarar þremur ferðum til tunglsins og til baka á ævinni.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri grein í bandaríska vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences . Greinin byggist á niðurstöðum rannsóknar hóps vísindamanna frá Grænlandi, Danmörku, Bandaríkjunum, Bretlandi og Íslandi, en þeir hafa kortlagt nákvæmlega farflug kríunnar frá varpstöðvunum á noðurslóðum til vetrarheimkynna við suðurskautið. Á meðal greinarhöfundanna er Ævar Petersen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, og skýrt er frá niðurstöðunum á vef stofnunarinnar, www.ni.is.

Við rannsóknina var beitt nýlegri tækni, 1,4 gramma ljósrita („geolocator“), sem komið var fyrir á fæti fugla. Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að eftir að kríurnar fóru frá varpstöðvunum síðsumars höfðu þær um það bil mánaðarlanga viðdvöl á miðju Norður-Atlantshafi, um þúsund kílómetra norðan við Asoreyjar. Fuglarnir héldu síðan áfram suður á bóginn undan ströndum Norðvestur-Afríku en nálægt Grænhöfðaeyjum gerðist nokkuð sem ekki var vitað áður. Í stað þess að halda áfram suður undan ströndum Afríku sveigði um helmingur fuglanna vestur yfir Atlantshaf og hélt áfram suður með ströndum Suður-Ameríku. Þegar fuglarnir voru komnir suður undir Argentínu fóru sumir þeirra beina leið til vetrarstöðvanna í Weddellhafi en vísindamönnum til undrunar héldu aðrar kríur með staðvindum beint austur til Suður-Afríku. Þaðan héldu fuglarnir til vetrarstöðvanna eftir mismunandi leiðum. Sumar kríur, þeirra á meðal ein íslensk, fóru langleiðina austur til Ástralíu áður en þær sneru aftur vestur á bóginn til Weddellhafsins. Þar voru fuglarnir í þrjá til fjóra mánuði meðan vetur var á norðurslóðum.

Fara ekki stystu leið

Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós að kríur velja aðra leið norður á bóginn en í suðurferðinni og fara ekki stystu leið. Þær fljúga í norður eftir S-laga ferli sem er nokkur þúsund kílómetrum lengri en beinasta leið sem þær gætu farið.

Þannig nýta kríurnar sér ríkjandi veðurkerfi, sem stjórnast af snúningi jarðar, og spara mikla orku, að því er fram kemur á vef náttúrufræðistofnunar.