Æfing Guðmundur Guðmundsson fylgist með landsliðsleikmönnum á æfingu á Hlíðarenda í gær. Liðið mætir Portúgal í kvöld í Laugardalshöll. 4
Æfing Guðmundur Guðmundsson fylgist með landsliðsleikmönnum á æfingu á Hlíðarenda í gær. Liðið mætir Portúgal í kvöld í Laugardalshöll. 4 — Morgunblaðið/Golli
Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is „ÞAÐ hefur oft verið stórkostleg stemning á heimaleikjum okkar í Laugardalshöllinni. Við treystum á að sem flestir komi og styðji við bakið á okkur að þessu sinni þegar við tökum á móti Portúgal.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„ÞAÐ hefur oft verið stórkostleg stemning á heimaleikjum okkar í Laugardalshöllinni. Við treystum á að sem flestir komi og styðji við bakið á okkur að þessu sinni þegar við tökum á móti Portúgal. Góður stuðningur hvetur leikmenn til dáða og er mikilvægur liður í undirbúningi landsliðsins fyrir stórmót. Það hefur gríðarlega mikið að segja fyrir okkur að finna fyrir stuðningi þjóðarinnar,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik. Í kvöld klukkan 20.15 mætir íslenska landsliðið því portúgalska í vináttulandsleik í Laugardalshöll. Þetta verður eini heimaleikur íslenska landsliðsins áður en það heldur á EM í Austurríki.

„Við erum að fara inn í mjög erfitt mót og því verða allir leikmenn að vera einbeittir þegar á hólminn verður komið. Það skiptir gríðarlega miklu máli til þess að ná sem hagstæðustum úrslitum í hverjum hinna þriggja leikja riðlakeppninnar. Hún er okkar fyrsti áfangi, lengra hugsum við ekki að sinni,“ segir Guðmundur Þórður um Evrópukeppnina sem hefst á næsta þriðjudag.

„Okkar von er sú að geta kvatt þjóðina á táknrænan hátt,“ segir Guðmundur og bætir við að í leiknum í kvöld verði áfram unnið við að bæta það sem betur má fara, jafnt í vörn sem sókn.

Portúgalir hafa verið við æfingar hér á landi síðan á sunnudag. Hingað komu þeir frá Svíþjóð þar sem þeir léku tvo leiki við heimamenn. Svíar unnu báða leikina, 36:24 og 32:29.