Logi Geirsson
Logi Geirsson
„VIÐ látum reyna á það í leiknum við Portúgali hvort Logi Geirsson getur farið með okkur á EM eða ekki.

„VIÐ látum reyna á það í leiknum við Portúgali hvort Logi Geirsson getur farið með okkur á EM eða ekki. Það er ekki hægt að bíða lengur eftir að fá svar við þeirri spurningu,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla í gær, spurður um þá óvissu sem ríkir um þátttöku stórskyttunnar Loga Geirssonar á Evrópumeistaramótinu sem hefst í Austurríki á næsta þriðjudag.

„Við förum til Frakklands á föstudagsmorguninn og þá liggur EM hópurinn fyrir. Þess vegna getum við ekki beðið með að fá svar við þeirri spurningu hvort Logi getur farið með okkur eða ekki,“ sagði Guðmundur Þórður ennfremur.

Logi hefur glímt við erfið meiðsli í hægri öxl frá því snemma á síðasta ári. Hann gekkst undir aðgerð í mars og eftir það tók við meðferð. Logi hefur lítið getað leikið með Lemgo á þessari leiktíð þar sem batinn hefur verið hægari en vonir stóðu til.

Fari Logi ekki með, verður þetta annað Evrópumeistaramótið sem hann missir af vegna meiðsla. Hann var einnig úr leik fyrir EM 2006 í Sviss. iben@mbl.is