ÍSLENDINGAR standa frammi fyrir vali milli tveggja kosta. Annars vegar að verja stórt og umfangsmikið ríki og velferðarkerfi, fjármagnað með hærri sköttum. Hins vegar að draga úr opinberum útgjöldum og minnka velferðarkerfið.

ÍSLENDINGAR standa frammi fyrir vali milli tveggja kosta. Annars vegar að verja stórt og umfangsmikið ríki og velferðarkerfi, fjármagnað með hærri sköttum. Hins vegar að draga úr opinberum útgjöldum og minnka velferðarkerfið. Fyrri kosturinn þýðir auknar líkur á langvarandi kreppu og greiðslufalli ríkisins, en sá síðari meiri hagvöxt og minni kreppu.

„Velferð Íslands og sjálfsvirðing þjóðarinnar kalla á seinni kostinn, þótt hann sé ekki sársaukalaus,“ sagði Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor á skattadegi Deloitte í gær.

Ragnar sagði stöðu þjóðarbúsins og ríkissjóðs slíka að eigi Íslendingar að komast upp úr þeirri lægð sem við erum í nú, er þörf á hraustlegum hagvexti næstu ár.

Sagði Ragnar að nú stæði yfir dýpsta kreppa frá stofnun lýðveldisins, hér hefðu brunnið upp miklar eignir, heill geiri atvinnulífsins væri nánast horfinn, skuldir þjóðarbúsins gríðarháar og aðgengi að erlendu lánsfé væri nær ekkert.

Talsverð hætta á greiðsluþroti

Á meðan einstaklingar og fyrirtæki aðlöguðu sig að þessari breyttu stöðu myndi eftirspurn eftir vörum og þjónustu dragast mjög saman og umsvif í hagkerfinu sömuleiðis. Vextir og afborganir ríkisins næstu fimmtán ár yrðu á bilinu 50-100 milljarðar króna og þetta fé yrði ekki notað í annað á meðan. Eftirspurn ríkisins eftir vörum og þjónustu myndi því dragast saman.

Þessir þættir, ónóg innlend eftirspurn og takmörkuð framkvæmdageta, væru efniviður í langvarandi kreppu á Íslandi. Það þýddi aftur að æ erfiðara yrði fyrir ríkið að afla tekna og því talsverð hætta á greiðsluþroti ríkisins.

Til að nægilegur hagvöxtur verði á næstu árum segir Ragnar að fjárfesta þurfi í fjármunum og mannauði. Þá verði að nýta framleiðsluþætti, eins og vinnuafl, eins og unnt er. Til að hægt sé að ná þessu markmiði þurfa fjárfestingar að verða arðvænlegri og vinna fólks ábatasamari. Þetta verði aðeins gert með því að lækka skatta og vexti.

Ragnar segir að staða ríkissjóðs sé svo slæm að ef til vill sé ekki svigrúm til skattalækkana, en óráð sé við núverandi aðstæður að hækka skatta. Hallarekstur verði að brúa með niðurskurði útgjalda. Undanfarin ár hafi útgjöld hins opinbera aukist mjög hratt og því ætti að vera svigrúm til niðurskurðar þar. En einnig verði því miður að skera niður í velferðarmálum. „Óhjákvæmilegt er að minnka velferðarkerfið. Við höfum einfaldlega ekki efni á því lengur að reka það kerfi sem til staðar er. Slíkan niðurskurð verður að fara í á eins mannúðlegan og heiðarlegan hátt og unnt er, en hann er nauðsynlegur.“ bjarni@mbl.is