Sverre Jakobsson
Sverre Jakobsson
Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„VIÐ viljum kveðja þjóðina með stæl og vonumst til að hún fjölmenni á leikinn og styðji við bakið á okkur,“ sagði Sverre Jakobsson, landsliðsmaður í handknattleik, um vináttulandsleikinn við Portúgal sem hefst í Laugardalshöll klukkan 20.15 í kvöld.

„Leikurinn skiptir okkur miklu máli þar sem við eigum enn eftir að vinna í mörgum atriðum áður en að Evrópukeppninni kemur. Sex núll varnarleikur okkur ekki eins og góður og vonir stóðu til í leikjunum í Þýskalandi um síðustu helgi. Á móti kemur að fimm-einn vörnin var fín og það verður góður plús fyrir liðið að eiga hana í bakhöndina þegar á hólminn verður komið á Evrópumótinu.

Okkar ætlun er að vinna í þeim atriðum sem betur mega fara. Þar af leiðandi er þessi viðureign við Porúgal mikilvægur liður í undirbúningnum,“ sagði Sverre sem leikur stórt hlutverk í varnarleik Íslands. Að margra mati er Sverre einn af betri varnarmönnum í evróskum handknattleik um þessar mundir.

„Ég hef fulla trú á því að varnarleikurinn batni eftir því sem næst dregur Evrópukeppninni.

Markmið okkar er að fara í leikinn af fullum krafti og ná hagstæðum úrslitum. Þótt Portúgal sé ef til vill skörinni lægri en við þá verður ekkert einfalt eða eitthvað formsatriði að vinna þá, langt í frá,“ segir Sverre sem segir stuðnings áhorfenda skipta miklu máli, ekki bara til þess að ná fram hagstæðum úrslitum heldur ekki síst til þess að íslenska liðið finni fyrir stuðningi nú skömmu áður en flautað verður til leiks á EM í Austurríki.

Sverre tekur þátt í sínu öðru EM í Austurríki. Hann var fyrst með í Noregi 2008.