Einleikarar og tónskáld Helga Svala Sigurðardóttir flautuleikari, tónskáldin Hafdís Bjarnadóttir og Anna S. Þorvaldsdóttir, og Matthías Sigurðsson klarínettuleikari.
Einleikarar og tónskáld Helga Svala Sigurðardóttir flautuleikari, tónskáldin Hafdís Bjarnadóttir og Anna S. Þorvaldsdóttir, og Matthías Sigurðsson klarínettuleikari. — Morgunblaðið/Heiddi
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is ÞAÐ var mjög góð tilfinning og mjög gaman að hafa alla Sinfóníuhljómsveitina á bak við sig á æfingu í morgun,“ segir Matthías Sigurðsson klarínettuleikari.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

ÞAÐ var mjög góð tilfinning og mjög gaman að hafa alla Sinfóníuhljómsveitina á bak við sig á æfingu í morgun,“ segir Matthías Sigurðsson klarínettuleikari. Hann er annar tveggja ungra einleikara sem koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Bernharðs Wilkinsons, á tónleikum annað kvöld. Í einleikarakeppni hljómsveitarinnar og Listaháskólans í nóvember voru þau Matthías og Helga Svala Sigurðardóttir flautuleikari úrskurðuð hæf til að koma fram með hljómsveitinni. Þau eru nemendur Tónlistarskólans í Reykjavík.

Matthías leikur Klarínettukonsert nr. 2 eftir Weber. „Ég er búinn að vinna með hann í eitt og hálft ár, þannig að það fer varla mikið úrskeiðis,“ segir hann. „Ég spilaði hann líka í nóvember með hljómsveit Tónlistarskólans.“

Helga Svala mun leika flautukonsert eftir Jacques Ibert og segist ekki vitund stressuð, heldur njóti hún sín á sviðinu með hljómsveitinni.

„Ég hef verið að leika konsertinn síðan í maí og lék hann allan í keppninni í nóvember,“ segir hún. „Hann hefur breyst nokkuð hjá mér síðan, enda er ég búin að vinna mikið í honum.“

Samið upp úr prjónauppskrift

Á tónleikunum verða einnig leikin ný verk eftir ung tónskáld, Þórdísarhyrna, 1.-12. umferð , eftir Þórdísi Bjarnadóttur og Dreymi eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur.

Þórdísarhyrna, 1.-12. umferð , er samið upp úr prjónauppskrift, fyrstu 12 umferðunum í sjali sem er í bókinni „Þríhyrnur og langsjöl“ eftir Sigríði Halldórsdóttur,“ segir Hafdís. „Verkið hljómar eins og Sinfóníuhljómsveitin sé að prjóna þetta sjal. Áheyrandinn fær á tilfinninguna að eitthvað sé að myndast. Það eru efni, áferð og mynstur.“

Anna segir að verk sitt, Dreymi , sé innblásið af náttúru og flæði. „Stór hluti verksins er byggður á öðrum hljóðum en hefðbundnum tónum, hljóðheimurinn flæðir saman við einskonar stef.

Það er mér ástríða að vinna með þennan stóra hljóðheim sinfóníuhljómsveitarinnar,“ segir hún.

Ungir einleikarar og tónskáld

Sigurvegarar úr einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitarinnar og Listaháskóla Íslands koma fram á Sinfóníutónleikum annað kvöld, fimmtudagskvöldið 14. janúar.

Einleikarakeppnin fór fram í Háskólabíói í nóvember síðastliðnum. Ellefu nemendur tóku þátt og dómnefn úrskurðaði tvo hæfa til að koma fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveitinni. Það eru þau Helga Svala Sigurðardóttir flautuleikari, sem leikur flautukonsert eftir Jacques Ibert, og Matthías Sigurðsson klarínettuleikari, sem flytur klarínettukonsert nr. 2 eftir Carl Maria von Weber. Bæði eru nemendur við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Þá munu tvö ný verk ungra tónskálda hljóma á tónleikunum annað kvöld. Þórdísarhyrna, 1. - 12. umferð, sem er eftir Hafdísi Bjarnadóttur og Dreymi eftir Önnu Þorvaldsdóttur.